Undir lok ágústmánaðar fóru þrír starfsmenn ÍSOR norður í land til að sinna umhverfiseftirliti fyrir Landsvirkjun á nýtingarsvæðum þeirra í Kröflu, Námafjalli og á Þeistareykjum. Síðastliðinn áratug hefur ÍSOR sinnt því verkefni að fylgjast með breytingum á þessum jarðhitasvæðum. Fylgst er með breytingum á jarðhitavirkni á yfirborði á þessum svæðum, tekin eru sýni og fylgst er með breytingum á efnasamsetningu í gufuaugum og streymi koldíoxíðs um yfirborð er mælt. Mikilvægt er að fylgst sé með þessum þáttum, bæði til að fylgjast með áhrifasvæði virkjananna og ekki síður til þess að fylgjast með ástandinu í jarðhitageyminum. Breytingar á þrýstiástandi í jarðhitageyminum koma fram í breytingum á yfirborði og slíkar breytingar geta skipt miklu máli við nýtingu á jarðhitaauðlindinni.
Myndir: Auður Agla Óladóttir