Landgrunnsmál
ÍSOR veitir stjórnvöldum vísindalega ráðgjöf vegna afmörkunar landgrunns Íslands. Um er að ræða rannsóknarvinnu, gagnaöflun og túlkun gagna. Sérfræðingar ÍSOR hafa tekið þátt í að kynna kröfur Íslendinga fyrir landgrunnsnefnd Sameinuðu þjóðanna. Jafnframt hefur ÍSOR veitt ráðgjöf í samningaviðræðum milli ríkja um skiptingu landgrunnssvæða.
Ísland gerði tilkall til þriggja landgrunnssvæða utan 200 sjómílna. Samið var um Ægisdjúp samið í mars 2016 á grundvelli greinargerðar um landgrunn Íslands. Hin svæðin eru Reykjaneshryggur og Hatton-Rockall svæðið. Svæðin þrjú eru samtals rúmlega 1.400.000 km² að stærð, eða um fjórtánfalt landsvæði Íslands. Það eru verulegir hagsmunir fyrir Ísland í því að tryggja sem víðtækust landgrunnsréttindi, jafnvel þótt ekki sé enn að fullu ljóst hvaða auðlindir svæðin hafa að geyma.
Gagnaöflun og túlkun
- Fjölgeisla dýptarmælingar. Lengd mælilína var um 32.000 km og þöktu þær um 100.000 km2 sem samsvarar stærð Íslands. Hafrannsóknastofnun sá um famkvæmd þeirra.
- Önnur dýptargögn. Viðbótargögn voru fengin úr opnum gagnagrunnum.
- Jarðsveiflumælingar (hljóðendurkasts- og bylgjubrotsmælingar) voru gerðar til að kanna setþykkt og til að fá gleggri mynd af jarðsögu svæðisins. ÍSOR hafði yfirumsjón með öflun mælinganna en erlendir aðilar gerðu mælingarnar.
- Hljóðendurkastsmælingar. Mælingar voru gerðar í Ægisdjúpi, austan í Reykjaneshrygg, á Íslands-Færeyjahrygg og á Hatton-Rockall grunni, samtals um 4.800 km.
- Bylgjubrotsmælingar. Mældir voru um 290 km á Íslands-Færeyjahrygg.
- Þróaðar voru nýstárlegar aðferðir til að greina í sundur helstu landslagsþætti landgrunnsins, þ.e. grunnið, hlíðina, hlíðardrögin og djúpsjávarbotninn, en sjálfri greiningunni lýkur með ákvörðun á hlíðarfætinum. Frá hlíðarfætinum eru síðan útmörk landgrunnsins reiknuð sem 60 mílna samhangandi hringbogar.
Greinargerð Íslands um landgrunn utan 200 mílna
Greinargerð Íslands um afmörkun landgrunns á Ægisdjúpi og á vestur- og suðurhluta Reykjaneshryggjar var afhent landgrunnsnefnd Sameinuðu þjóðanna í New York 29. apríl 2009. Hægt er að lesa samantekt greinargerðarinnar hér neðar á síðunni í PDF skjali.
Unnið er að greinargerð fyrir austurhluta Reykjaneshryggjar og Hatton-Rockall svæðið.
Samantekt: Greinargerð um landgrunn Íslands