Sprengigígar
Gosgígar
Gosgígar sem þróast hafa í sprengigíga koma fyrir á nokkrum háhitasvæðum. Þeir eiga rætur að rekja til eldgosa þar sem vatn úr jarðhitakerfi hefur leitað í gosrásina og soðið upp úr henni. Nýleg dæmi eru Vítin í Kröflu og Öskju. Hvannstóð vestur af Kröflu er forsögulegur gígur af sama tagi. Þar sem gossprungur liggja yfir háhitasvæði koma fyrir sprengigígar og meira gjall í gígum en utan við. Vatn úr jarðhitakerfi er þar einnig orsökin. Skýrust dæmi eru í Trölladyngju og Krýsuvík en það sama sést einnig í Innstadal í Hengli, Bjarnarflagi og e.t.v. víðar. Dæmin sem hér að framar er vitnað til eru öll frá nútíma, þ.e. eftir lok ísaldar. Á nokkrum háhitasvæðanna eru sprengigígar og jafnvel þyrpingar sprengigíga frá ísöld eða ísaldarlokum, t.d í Kröflu, Trölladyngju, Hengli og Kverkfjöllum. Þeir kunna að hafa myndast þegar þrýstiástand fór úr jafnvægi við hlaup eða við snögga lækkun grunnvatnsborðs í ísaldarlokin.
Finnast: Trölladyngja, Krýsuvík-Seltún-Sveifluháls, Austurengjar, Kverkfjöll, Askja, Krafla, Krókóttuvötn
Minniháttar hverasprengigígar
Minniháttar hverasprengigígar eru nokkuð algengir á háhitasvæðum. Þeir verða til þegar vatn hvellsýður á litlu dýpi. Hverabollarnir eru fáeinir metrar á dýpt og 30 til vel yfir 50 m í þvermál þeir stærstu. Nokkur nýleg dæmi eru um hverasprengingar sem allar hafa orðið í tengslum við jarðskjálfta (Hveragerði og Reykjakot þar ofan við, Austurengjahver í Krýsuvík) og þá á upptakasprungunum.
Finnast: Trölladyngja, Krýsuvík-Seltún-Sveifluháls, Austurengjar, Grændalur/Hveragerði, Landmannalaugar, Vestur-Reykjadalir, Austur-Reykjadalir, Kverkfjöll, Krafla, Leirhnjúkur, Þeistareykir
Kolsýrusprengigígar
Kolsýrusprengigígar eru sprengigígar af óvissum uppruna og koma fyrir á Hengilssvæðinu. Þeir eru í móbergsfjöllum norðaustur af Ölkelduhálsi og miklu yngri en fjöllin sjálf (Smjördalur í Súlufelli og Katlatjarnir). Gígarnir eru nokkur hundruð metrar í þvermál, kringlóttir, nema þar sem þeir grípa hver í annan, en ekkert úrkast verður rakið til þeirra. Bólstrabergshryggir mynduðust á eftir gígunum, líklega í sama gosi. Mikil kolsýra er í hverum á Ölkelduhálsi.
Finnast: Ölkelduháls