Jarðhiti á Hengilssvæðinu
Hengilssvæðið nær yfir tvær megineldstöðvar og nágrenni þeirra. Önnur, Hveragerðiseldstöðin, er útdauð og sundurgrafin. Hin er virk og nær yfir Hengil og Hrómundartind. Gosmyndanir á svæðinu eru um 800.000 ára gamlar. Elstu jarðlögin er að finna í ásunum suðaustan við Hveragerði en yngst eru hraunin sem flætt hafa frá gosreininni gegnum Hengil.
Gosmyndanir á Hengilssvæðinu eru fjölbreyttar. Aðalgerðir eldstöðva eru þó einungis tvær, tengdar sprungugosum og dyngjugosum. Jarðskorpuhreyfingar í gliðnunarbelti, eins og verið hefur á Hengilssvæði allan þann tíma sem jarðsaga þess spannar, sýna sig í gjám og misgengjum og hallandi jarðlögum á jaðarsvæðunum. Skjálftabelti Suðurlands gengur austan til inn í Hengilssvæðið.
Á vestanverðu Hengilssvæðinu er landslagið mótað af gosmyndunum sem hafa hlaðist upp á síðasta jökulskeiði og á nútíma. Austan til hafa roföflin hins vegar mótað það.
Laus jarðlög þekja sléttlendi og fjallshlíðar eru hvergi mjög skriðurunnar nema þar sem þykk hraunlög eru í brúnum eða fjöllin eingöngu úr bólstrabergi. Um vatnafar á Hengilssvæðinu skiptir í tvö horn. Á því vestanverðu eru stöðugar lindir og lækir einungis þar sem jarðlögin eru svo ummynduð að þau halda vatni. Annars sígur þar allt vatn í jörð. Á austanverðu svæðinu renna ár og lækir árið um kring.
Hengilssvæðið er með stærstu jarðhitasvæðum á landinu, eða um 100 km2. Það er þó ekki allt einn og sami suðupotturinn, heldur er það a.m.k. þrískipt:
- Suðaustasti hluti þess er í Hveragerðiseldstöðinni (Grændalur). Hún erhætt gosum og þegar nokkuð rofin. Boranir í Hveragerði og upp með Varmá hafa sýnt að þar er á ferðinni afrennsli af heitara svæði norðar eða norðvestar. Vinnsla umfram það sem núverandi borholur gefa myndi því byggjast á borunum í Grændal. Ef nefna ætti eitthvert séreinkenni þessa svæðis, þá væru það kísilhverirnir í Hveragerði og á Reykjum, eða hinar fjölmörgu laugar sem spretta fram úr berghlaupum í Grændal. Innan um eru gufuhverir sem gjarnan fylgja sprungum tengdum Suðurlandsskjálftum. Mörg dæmi eru um hverabreytingar á þessu svæði, bæði fornar og nýjar. Svæðið er þægilega lágt í landinu, um og innan við 200 m. Aðgengi útheimtir vegalagningu yfir skriðurnar vestan megin í dalnum án þess að spilla hverum eða laugasvæðum.
- Ölkelduhálssvæðið sker sig úr fyrir kolsýrulaugarnar sem eru í þyrpingu frá Ölkelduhálsi suður í Reykjadal og í Hverakjálka. Jarðhitinn þar fylgir gosrein með misgömlum móbergsfjöllum og stökum hraungígi, Tjarnarhnúki. Aðgengi er auðvelt og raunar nú þegar fyrir hendi línuvegur upp á Ölkelduháls.
- Loks er jarðhitasvæðið í Henglafjöllum. Það nær frá Nesjavöllum suðvestur í Hveradali og Hverahlíð. Jarðhitinn er mestur og samfelldastur utan í Hengli alls staðar nema norðvestan megin. Brennisteinshverir eru mestir vestan til í Henglafjöllum, þ.e. í Sleggjubeinsdölum, norðan við Innstadal og ofan við Hagavíkurlaugar. Austan megin eru kalkhverir og kolsýrulaugar algengar. Jarðhitanum á Henglafjöllum má hugsanlega skipta í nokkur vinnslusvæði, sem öll gætu verið innbyrðis í þrýstisambandi: Nesjavelli, Sleggjubeinsdal, Hellisheiði, Hverahlíð, Þverárdal, Innstadal og Fremstadal.
Landslag á svæðinu er fjöllótt og vinnsla jarðhita fer mjög eftir aðgengi að viðkomandi svæðum. Einnig eru jarðhitasvæðin misjafnlega heppileg til nýtingar, sem aðallega fer eftir hita og kolsýruinnihaldi.
Heimild: Kristján Sæmundsson, ÍSOR.