Jarðhitasvæðið í Brennisteinsfjöllum
Jarðhitasvæðið í Brennisteinsfjöllum liggur í 400–500 m hæð yfir sjó. Virkur jarðhiti kemur fram sem gufur í um 450 m hæð en köld ummyndun er á fjórum stöðum og vitnar um meiri virkni á fyrri tíð. Jarðhiti á yfirborði er óverulegur og miðað við útbreiðslu jarðhita og ummyndunar er svæðið um 3 km2. Viðnámsmælingar benda til þess að svæðið sé um 18 km2 á 700 m dýpi undir sjávarmáli, um 1200 m undir yfirborði þar sem jarðhita verður vart. Háhitasvæðið í Brennisteinsfjöllum liggur í samnefndri sprungurein og hefur gosið þar a.m.k. 30–40 sinnum eftir að ísöld lauk. Brotalínur eru ungar á svæðinu frá sjó og norður á Mosfellsheiði og verða oft jarðskjálftar á um 5 km breiðu og um 40 km löngu belti. Jarðskjálftar í Brennisteinsfjöllum geta orðið nokkuð stórir.
Megingerð jarðlaga er móberg og þar sem gosstöðvar hafa náð upp úr jökli hafa runnið hraun og myndast stapar eða hraunahryggir. Allar bergmyndanir eru basalt og ekkert súrt eða ísúrt berg hefur fundist á yfirborði.
Heimild: Helgi Torfason og Magnús Á. Sigurgeirsson, 2001.