Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis- orku og loftslagsráðherra ásamt föruneyti kom á dögunum í heimsókn í nýtt húsnæði ÍSOR að Urðarhvarfi 8 í Kópavogi. Ásamt því að skoða aðstöðu höfuðstöðva ÍSOR, rannsóknarstofu og húsakynni GRÓ jarðhitaskóla var spjallað við starfsmenn og stjórnendur um umhverfis og orkumál. Þar voru ræddar sameiginlegar áherslur ÍSOR og stjórnvalda um mikilvægi þess að styðja við grunnrannsóknir í jarðvísindum og mikilvægi jarðhitanýtingar. Í Grænbók-stöðuskýrslu um áskoranir í orkumálum sem ráðherra kynnti nýlega koma fram áherslur sem miða að því að styðja við hitaveitur landsins og ekki síður eru nefndar áherslur stjórnvalda til að leita að jarðhita á köldum svæðum. Þá vöktu hafsbotnsrannsóknir ÍSOR mikinn áhuga en ÍSOR hefur um árabil verið aðalráðgjafi stjórnvalda á því sviði, m.a. með jarðvísindalegum rökstuðningi til afmörkunar á landgrunni Íslands og kortlagningu á náttúruvá og auðlindum á hafsbotni. Þá var ráðherra kynnt ný stefna ÍSOR, sem í hnotskurn felur í sér að metnaður ÍSOR er að vera leiðandi í ráðgjöf á heimsvísu á sviði sjálfbærrar nýtingar jarðrænna auðlinda og styðja kröftuglega við stefnu og áherslur Íslands í umhverfis-, auðlinda- og orkumálum innanlands og í alþóðlegu samstarfi.
Á meðfylgjandi myndum má sjá Ögmund Erlendsson jarðfræðing sýna ráðherra gögn um skriður á hafsbotni í Seyðisfirði ásamt hópmyndum af starfsmönnum ÍSOR og Jarðhitaskóla GRÓ með gestunum.