Í vikunni boðaði Guðlaugur Þ. Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftlagsráðherra, til upplýsingafundar um góðan árangur af jarðhitaleit á undanförnum mánuðum og misserum. Þar kynnti Árni Magnússon, forstjóri ÍSOR, m.a. niðurstöður rannsókna á möguleikum nýtingar lághita á Reykjanesi, sem ráðist var í með hliðsjón af því ástandi sem skapast hefur á svæðinu vegna síendurtekinna eldsumbrota og yfirvofandi hættu á skerðingu á heitu vatni vegna þeirra.
Niðurstöður rannsóknarborana leiddu í ljós að með nýtingu þess jarðhitavatns sem við þær fannst, má í skemmri tíma halda svæðinu frostfríu og þar með koma í veg fyrir meiriháttar skemmdir á innviðum, ef svo illa færi að Svartsengis nyti ekki við. Þrátt fyrir þær jákvæðu niðurstöður er brýnt að halda áfram rannsóknum á svæðinu og undirbúa virkjun þess heita vatns sem þarna fannst. Upptöku frá upplýsingafundi ráðherra má finna hér að neðan.