Jarðhitasvæðið Torfajökull
Torfajökulssvæðið er samfelldur fjallabálkur sem rís 300-600 m yfir umhverfið. Einkennisbergtegund þess er líparít allt frá elstu myndunum til þeirra yngstu. Móbergsmyndanir eru ofan á líparítinu að hluta, unglegir hryggir og móbergsþekjur á vestursvæðinu, en rofleifar á austursvæðinu með berggöngum í undirlaginu. Eldfjallið, sem Torfajökulssvæðið vissulega er, hefur hlaðist upp á hliðarbelti. Þess verður fyrst vart í móbergsmyndunum, sennilega frá síðasta jökulskeiði, að gliðnunarbelti brjótist inn í það. Samtímis breyttist bergtegundin úr alkalísku í blandberg þar sem basaltþátturinn er þóleiít. Yngstu merki þessa eru NA-SV-læg misgengi og gossprungur líparíthraunanna.
Á Torfajökulssvæðinu skiptir í tvö horn um landslag. Austursvæðið er útgrafið af giljum þar sem er Jökulgilskvíslin. Hún rennur á aurum og sumar meginkvíslarnar sem að henni liggja, en afgilin eru kröpp í botni, lausaskriður upp frá og berg þegar hærra kemur. Aurarnir eru til komnir við hraunstíflur í Tungná og síðast í Jökulgilskvíslinni sjálfri er Norðurnámshraun stíflaði hana fyrir rúmum 500 árum. Kvíslin hlaut vegna þess að hlaða undir sig.
Jarðhiti og jarðhitamerki á Torfajökulssvæðinu ná yfir um 200 km2 svæði. Kjarni virka jarðhitans er í feiknamikilli öskju og nær yfir um 100 km2, en ummyndun í bergi nær langt út fyrir hana og afrennslisvatn kemur fram á lágsvæðum utan við fjallabálkinn, aðallega sunnan megin.
Sprungu- og eldvirkni nær inn á austursvæðið allranyrst með NA-SV-lægum brotum og gossprungu Laugahrauns. Austursvæðið einkennist af litskrúðugu bergi í brattlendi en dökku móbergi og ösku þar sem háslétta tekur við ofan gilja.
Mestallt vestursvæðið er öldótt háslétta með grunnum daldrögum. Markarfljót rennur vestur af henni og sýpur upp smáár og læki úr Reykjadölum, er þó enn lítið á vaðinu norðan við Laufafell. Eina umtalsverða rofsvæðið er í Ljósártungum. Þar hafa grafist alldjúp gil í öskjufyllinguna innan við öskjubarminn og ná norður undir Hrafntinnusker og austur að Kaldaklofsjökli. Dalakvísl sem rennur norður af er komin nokkuð á veg með að grafa sig inn frá öskjujaðrinum þeim megin, en vinnst seint því þar er stutt í gossvæði með móbergi og ungum hraunum sem tefja. Yfir að líta er vestursvæðið dökkt, með gufustrókum og grænum röndum þar sem raklent er. Dökka litnum veldur mest yngsta gosaskan (Hekla 1845 og 1597 auk Kötlu 1918). Þar sem til er grafið sjást einnig þykk vikurlög. Það yngsta af þeim er úr Hrafntinnuhrauni. Það liggur þykkt á öldunum norðvestur frá hrauninu og slær á þau gráum lit þar sem svarta askan er blásin af.
Jarðhitinn er aðallega í sjö þyrpingum, sem kenndar eru við Landmannalaugar, Hattver, Háuhveri, Stórahver, Vestur- og Austur-Reykjadali og Ljósártungur. Jarðhiti kemur einnig fyrir þar utan við, en er óverulegur. Ofar var getið um afrennsli utan meginkjarnans (Dalakofi, Laufafell, Grashagi, Bratthálskvísl, Strútslaug og Dómadalur).
Landmannalauga-þyrpingin nær inn um Vondugil, Grænagil og Brandsgil. Landhæð er 600-900 m. Hverirnir eru aðallega gufu- og leirhverir, hvergi mjög öflugir og fylgja stundum NA-SV-lægum sprungum. Á nokkrum stöðum má sjá kulnaða hveri raða sér á brot með sömu stefnu, en þá hátt í landi (Tröllhöfði, og milli Brandsgilja). Hverasprengigígar sjást á nokkrum stöðum, t.d. við Laugaveginn. Hverir með djúpvatnseinkennum (klór- og kísilríku vatni) koma einnig fyrir á aurum þar sem lægst er. Engar verulegar útfellingar sjást þó. Jarðmyndanir eru afar fjölbreyttar á þessu svæði og óhóf í litum og landslagi.
Hattvers-þyrpingin nær yfir fremur lítilfjörleg hverasvæði efst í Stóra-Brandsgili og niður með Suðurskalla, ofan í Hattver og inn í botnana gegnt Hattveri sunnan við “Kvíslina”. Allt eru þetta gufu og leirhverir, en laugahitur í Hattveri. Kalklaugar með skrautlegum þörungagróðri og útfellingapöldrum eru í Hraukagili austur af Skalla.
Háuhvera-þyrpingin um 7 km² að stærð er austan við Reykjafjöll og teygir sig þaðan niður í Kaldaklof og Heitaklof og þaðan upp undir Torfajökul. Hveravirkni er í 700-900 m hæð, víða samfelld og áköf, allt gufu- og leirhverir. Mesta torleiði er að komast um þetta svæði, en aðkoma greið ef ekið er inn í botn á Jökulgili, eins ef gengið er austur fyrir Reykjafjöll, ellegar upp úr Kaldaklofi syðra.
Af Skalla og Suðurskalla er einstakt útsýni yfir innri hluta Jökulgils með sínum óteljandi afgiljum og litskrúðuga bergi og yfir hverasvæðin og smájöklana kúrandi norðan í háfjöllunum umhverfis. Andstæður hvert sem er litið: giljaland – háslétta, litskrúð í giljunum og eintóna dökk aska og móberg hið efra, hverir –jöklar, gróin framhlaup og gróðurlausar fjallskriður og aurar.
Stórahvers-þyrpingin er eitt og stakt hverasvæði í austustu drögum Markarfljóts í 900 m hæð og lítið um sig. Þar er áköf hveravirkni og sést gufustrókurinn úr Stórahver jafnan langt að. Fyrir 30 árum hvein svo hátt í honum að óþægilegt var að standa þar hjá, en svo er ekki lengur. Vatnsmiklar volgar lindir koma úr hraunviki beint á móti hvernum. Hveraþyrpingin tengist NA-SV- misgengjum sem ganga inn í og inn undir Hrafntinnusker og sama gegnir um kaldar jarðhitaskellur og laugar í gildragi nokkru norðar. Laugavegurinn liggur hjá Stórahver og gömul bílaslóð endar á melnum skammt norðan við hverinn. Umhverfið er fremur fábreytt þar í kring.
Hveraþyrpingin í Vestur-Reykjadölum er um það bil 4 km² að flatarmáli í 800-900 m hæð og nær frá Dalamótum upp í Dalöldur þar vestur af. Hverirnir eru í hvilftum og gilskorum, og hitaskellur umhverfis. Meðal þeirra eru kröftugir gufuhverir, leirhverir, soðpönnur og gruggugir vatnspyttir. Hverasprengigígar koma fyrir (Fífuhvammur). Dalöldur eru úr móbergi, en líparít í undirlagi kemur fram í dýpsta gilinu norðan við bílaslóðina. Hverasvæðið er nánast allt norðan við Markarfljót. Sunnan þess eru hraun og vikrar og enginn jarðhiti sýnilegur fyrr en kemur suður fyrir Hrafntinnuhraun.
Austur-Reykjadalir (Hrafntinnusker). Skörp skil eru ekki milli Austur-Reykjadala og Ljósártungna önnur en þau að í Ljósártungum er jarðhitinn á mjög giljóttu svæði, en í Austur-Reykjadölum er jafnlendara. Utan hraunanna eru þar hallalitlar, vikurþaktar bungur og skorningar fremur en gil kvíslast upp í þær að vatnaskilum sem liggja um Jónsvörðu suðvestur frá Hrafntinnuskeri. Hverasvæðið í Austur-Reykjadölum er í 850-1000 m hæð og nær yfir um það bil 10 km² svæði. Tæpur helmingur þess er í elstu hraununum, Sléttahrauni og Hrafntinnuskeri, hinn hlutinn suðvestan þeirra. Þar er móberg undir, en líparít í fellunum vestast. Hveravirkni er þarna óvenjulega mikil og samfelld með gufu-, leir- og gruggugum vatnshverum. Mest er hún í hallanum upp að Jónsvörðu, kringum gossprungu Hraftinnuskershraunanna og þar eru öflugustu hverirnir. Mikil hveravirkni og hitaskellur eru einnig kringum uppvörpin í Sléttahrauni og suðvestur þaðan. Auk gossprungna í líparíthraununum stefna misgengi og móbergshryggir norðaustan frá inn á hverasvæðið. Aðdráttarafl svæðisins eru hverirnir, fyrst og fremst íshellarnir syðst í jökulbunka norðvestan undir háskerinu. Vatnsmiklar lindir, sumar volgar, spretta undan Hrafntinnuskershrauninu. Í lækina frá þeim berst ógrynni af ösku og vikri í vatnavöxtum þegar við bætist afrennsli ofan af hrauninu.
Ljósártungur. Hverasvæðið í Ljósártungum er í 850-1000 m hæð og um 10 km² að stærð. Það er að stærstum hluta í giljunum sem renna til Ljósár og Ljósárgilinu sjálfu, en nær einnig ofan í Jökultungur innarlega. Hveravirknin er mest sunnan undir Hrafntinnuskeri og vestur undir Jónsvörðu, og gefa sumir hverirnir lítið eftir þeim stærstu þar norðan undir. Allt eru þetta gufu- og leirhverir með hitaskellum umhverfis og stórum flákum, upplituðum af ummyndun en köldum. Móbergshryggir stefna norðaustan frá inn á hverasvæðið í Ljósártungum, og basaltgangar með sömu stefnu sjást þar í giljunum. Laugavegurinn liggur meðfram þessu svæði að austan og stutt er að ganga frá íshellunum suður á aðalhverasvæðið sunnan við Jónsvörðu og Skerið. Landslag og jarðmyndanir er þar einkar fjölbreytt. Líparít, forn öskjufylling, er ráðandi niðri í giljunum, en yngri gúlar ofan við. Sérstakur er einnig vikurstabbi mikill suðaustan undir Hrafntinnuskeri, myndaður við upphaf gossins þar.
Hugmyndir um virkjun hafa einkum beinst að Austur- og Vestur-Reykjadölum, þó miklu fremur að Austur-Reykjadölum (Hrafntinnuskers-svæðinu), enda er það stærra og virknin þar miklu meiri. Stórahvers-svæðið liggur einnig vel við virkjun. Önnur þau svæði sem hér eru talin kæmu síður til álita vegna verndarsjónarmiða og sum vegna ills aðgengis.
Heimild: Kristján Sæmundsson, ÍSOR.