ÍSOR hefur frá stofnun lagt ríka áherslu á rannsóknir, nýsköpun og þróun hagkvæmra lausna til að mæta áskorunum tengdum nýtingu jarðhita.
Nýjasta dæmið um slíka nýsköpun er háhita djúpsýnataki, sem er afrakstur umfangsmikillar þróunarvinnu í evrópsku rannsóknarverkefnunum REFLECT og COMPASS, sem voru styrkt af Horizon Europe, rannsóknaráætlun Evrópusambandsins.
Djúpsýnatakinn er hannaður til að taka sýni af jarðhitavökva djúpt í jarðhitakerfum með það markmið að ná sýnum við allt að 400-500°C hita. Í þróunarvinnunni hefur djúpsýnatakinn verið prófaður til að taka sýni úr holum Orku Náttúrunnar og Orkuveitunnar.
Tækið var nýverið notað í fyrsta sinn í háhitaholum Landsvirkjunar á Þeistareykjum, þar sem tekin voru vökvasýni af mismunandi dýpum úr tveimur borholum.
Með þessari tækni er unnt að ná fram mun nákvæmari efnafræðilegum upplýsingum úr jarðhitakerfinu en áður hefur verið mögulegt þar sem venjulega eru eingöngu tekin sýni af jarðhitavökva á yfirborði. Slík gögn eru lykilatriði fyrir eftirlit, ástandsmat og langtíma skilning á þróun jarðhitakerfa.
Þau gera orkufyrirtækjum kleift að fylgjast betur með breytingum í jarðhitakerfinu, meta áreiðanleika kerfisins, áhrif niðurdælingar og styðja við sjálfbæra og upplýsta ákvörðunartöku til framtíðar.
Innleiðing háhita djúpsýnatakans markar því mikilvægt framfaraskref í notkun nýrrar tækni við íslenska jarðhitanýtingu og stuðlar að betri og sjálfbærari nýtingu jarðhitaauðlindarinnar.
Hér fyrir neðan má sjá myndband frá deginum er djúpsýnatakinn var notaður í fyrsta sinn í háhitaholum Landsvirkjunar á Þeistareykjum.