Kolsýruhverir - Laugar og ölkeldur
Kolsýruhverir
Kolsýruhverir kunna að vera víðar en nú er vitað. Þeir eru fyrst og fremst þekktir á Ölkelduhálsi, sumir býsna stórir, þ.e. 10–20 m að þvermáli, með grágruggugum tjörnum og smávegis afrennsli. Gas- og suðuólga er í þeim á nokkrum stöðum en tjarnirnar annars misheitar. Engar útfellingar eru í kringum þær. Vatnið í hverum þessum er yfirborðsvatn úr hrauninu ofan við en mikil kolsýra er í gufunni sem hitar þá.
Finnast: Innstidalur, Ölkelduháls, Ljósártungur
Kalkhrúður
Kalkhrúður þekkist á fáeinum stöðum á háhitasvæðum þar sem nú er kalt eða óverulegur ylur í uppsprettum. Þessir staðir eru utan í Selvallafjalli (suðvestur af Trölladyngju) og í Blautukvíslarbotnum. Á stöku stað eru allmiklar útfellingar af aragóníti sem flokkað er með kalkhrúðri.
Finnast:
Kolsýruhverir og –laugar með kalkútfellingum
Kolsýruhverir og –laugar með kalkútfellingum koma fyrir á nokkrum háhitasvæðum, einkum við jaðra þeirra, eða þar sem virknin er dvínandi. Vatnið í þeim er grunnvatn fremur en yfirborðsvatn. Hverir og laugar af þessum toga eru í Reykjadal sunnan undir Ölkelduhálsi og austan undir Hengli (Hagavíkurlaugar). Í Kerlingarfjöllum (við Ásgarðsá), Tindfjallajökli (Hitagil), Kverkfjöllum (Hveragil) og sunnan undir Torfajökli eru kalklaugar á nokkrum stöðum sem jaðarfyrirbæri (t.d. við Markarfljót, Bratthálskvísl og Hitalaug/ Hólmsárbotnalaug).
Finnast: Grímsnes, Kerlingarfjöll, Tindfjallajökull, Ljósártungur, Vonarskarð, Kverkfjöll
Ölkeldur
Ölkeldur eru kaldar eða rétt volgar uppsprettur sem finnast á háhitasvæðum og oft í jöðrum þeirra. Yfirleitt eru þær járnmengaðar og bragðvondar og vatnið rauðbrúnleitt, jafnvel svo liti heilu lækina (Rauðfossakvísl). Slíkar ölkeldur eru á Torfajökulssvæði, einkum norðvestan til, en líka sunnan megin (Ölstallur) og austur í Jökulgili (Hraukarnir). Þær þekkjast einnig á Hengilssvæðinu (Hengladalir), í Vonarskarði og sem afrennsli inn af Grænalóni. Vatn úr þeim köldustu, sem mest ólga af kolsýrunni, er drekkandi þótt brúnleitt sé.
Finnast: Trölladyngja, Innstidalur, Ölkelduháls, Kerlingarfjöll, Tindfjallajökull, Landmannalaugar, Jökulgil, Vestur-Reykjadalir, Austur- Reykjadalir, Ljósártungur, Vonarskarð, Þórðarhyrna