Skip to content

Carbfix og ÍSOR undirrita samkomulag um kolefnisförgun

Carbfix og ÍSOR undirrituðu í dag samkomulag um frekari samvinnu á sviði kolefnisförgunar, m.a. á erlendri grundu, en fyrirtækin hafa á undanförnum árum átt gott samstarf um hana á Íslandi.

Markmiðið er að nýta enn frekar sameiginlega krafta og sérhæfingu á sviði kolefnisförgunar og varanlegrar geymslu. Carbfix og ÍSOR starfa nú þegar saman að rannsóknarverkefnum á þessu sviði, m.a. alþjóðlegum. Þá hafa fyrirtækin í allmörg ár unnið saman að staðarvali fyrir niðurdælingu koldíoxíðs, margvíslegum mælingum, borráðgjöf, jarðskjálftarannsóknum, efnarannsóknum og þróun rannsóknaraðferða, m.a. á rannsóknarstofu ÍSOR. Nú er enn frekari samvinna fyrirhuguð, ekki síst á sviði gagnasöfnunar og greininga ásamt hagkvæmniathugunum sem lúta að þeirri tækni sem Carbfix hefur þróað og mun áfram þróa.

Hlutverk Carbfix er að sporna gegn loftslagsbreytingum með niðurdælingu koldíoxíðs til steinrenningar og þannig varanlegrar geymslu í jarðlögum. Fyrirtækið hefur á undanförnum árum þróað til þess tækni og aðferðir sem vakið hafa heimsathygli. Á þessu ári hefur Carbfix bundið koldíoxíð í berglögum á Hellisheiði í tíu ár samfleytt og nú er stefnt að því að beita Carbfix-tækninni á mun stærri skala í Straumsvík ásamt fleiri samstarfsverkefnum hérlendis og erlendis. https://www.carbfix.com/

ÍSOR býr yfir meira en 75 ára reynslu af jarðvísindum, kortlagningu, rannsóknum og ráðgjöf við sjálfbæra nýtingu jarðrænna auðlinda. Þá hefur stofnunin áratugareynslu af kennslu og þjálfun á sínu sviði, bæði innanlands og utan. ÍSOR sér m.a. um rekstur Jarðhitaskólans í umboði utanríkisráðuneytisins en skólinn starfar undir merkjum UNESCO. https://isor.is/