Djúpvatn, hverir með klórríku vatni
Vatnshverir myndast á háhitasvæðum þar sem grunnvatn jarðhitakerfanna (djúpvatnið) er við suðumark og kemur upp að yfirborði. Djúpvatnið er kísilsýruríkt og hrúður fellur út þar sem það kemur fram, jafnan nærri eða fáum tugum metra ofan við kalt grunnvatnsborð umhverfisins.
Flokkun yfirborðsjarðhita í djúpvatnshveri eða hveri með klórríku vatni:
Kísilhverir
Grunnvatnið í háhitasvæðunum inniheldur mikið af uppleystum efnum, einkum kísli. Þar sem slíkt vatn kemur upp á yfirborð fellur kísillinn út og myndar bungur af kísilhrúðri umhverfis hveraopin. Stærstu hrúðurbreiðurnar eru nokkrir hektarar að stærð. Dæmi eru Hveragerði, Sandarnir hjá Geysi og Hveravellir. Paldrar á hrúðurbungunum eru óskemmdir á Hveravöllum en máðir eftir traðk og veðraðir á Geysissvæðinu. Kísilhverir koma fyrir í djúpum gilskorningum í grennd við Landmannalaugar en það er lítið hrúður umhverfis.
Kísilhveri má finna: Grændalur/Hveragerði, Geysir, Hveravellir, Landmannalaugar
Djúpvatnsblandaðar laugar
Laugar á háhitasvæðum þar sem djúpvatn og kalt grunnvatn blandast saman. Djúpvatnsuppruninn þekkist á háu kísil- og klórinnihaldi í vatninu. Laugarnar koma fyrir á svæðinu kringum Landmannalaugar og vestan við Námafjall. Landmannalaugar spretta undan Laugahrauni þar sem land er lægst. Laugar af þessum uppruna koma einnig upp úr áreyrum þar nærlendis. Vestan við Námafjall er vatnið í gjánum af þessum uppruna.
Djúpvatnsblandaðar laugar má finna: Landmannalaugar, Öxarfjörður
Goshverir
Goshverir eru óstöðug fyrirbæri, eflast við jarðskjálfta en hjaðna á milli. Geysir efldist við skjálftana 1896 en hætti að gjósa af sjálfsdáðum 1916. Goshverir hafa komið upp á Reykjanesi við skjálfta en verið skammlífir. Kísilhóllinn