[x]

Rannsóknaleyfi

Eftir Ólaf G. Flóvenz. (Grein birt í Morgunblaðinu 6. nóvember 2006).

Nýlega birti ég grein á miðopnu Mbl. um háhitarannsóknir og rannsóknaboranir. Tilgangur hennar var að skýra hvernig háhitarannsóknir fara fram, af hverju þyrfti rannsóknaboranir og hvert væri hlutverk rannsóknaleyfis og laga um mat á umhverfisáhrifum í því samhengi. Í greininni lagði ég áherslu á mikilvægi þess að fleyta fram rannsóknum á auðlindum gosbeltisins, t.d. með því að reitaskipta því og auglýsa eftir umsóknum um rannsóknaleyfi í því öllu. Með því móti fengjum við hraðast haldgóða þekkingu á auðlindum og náttúrufari gosbeltins. Út frá þeirri þekkingu mætti taka upplýsta ákvöðrun náttúruvernd og nýtingu. Ég tók hvergi afstöðu til verndunar eða nýtingar á tilteknum svæðum, aðeins til öflunar þekkingar.

Grein Valdimars
Ég hef fengið nokkur viðbrögð við grein minni, flest jákvæð en fáeinir virðast hafa misskilið greinina sem mér þykir miður. Meðal þeirra eru Valdimar Leó Friðriksson, sem svaraði grein minni í Mbl. 23. okt. Þar segir hann m.a. “Ólafur reynir í grein sinni að telja lesendum trú um að með veitingu rannsóknaleyfis sé á engan hátt verið að stefna náttúru svæðisins í voða. Það sé engan veginn ávísun á leyfi til að bora rannsóknarholur. Þessu trúir auðvitað ekki nokkur maður.” Hann bendir á að í Hverahlíð og á Ölkelduhálsi séu 2-3 rannsóknarholur sem aldrei voru sendar í umhverfismat og bæði svæðið séu sköðuð eftir rannsóknir í kjölfar rannsóknaleyfis. Þarna ruglar Valdimar því miður saman því sem ég var að reyna að útskýra í grein minni, nefnilega muninum á rannsóknaleyfi og leyfi til borunar á tiltekum stað. Ég ætla því hér á eftir að reyna að útskýra þetta aðeins betur.

Rannsóknaleyfi veitir hvorki leyfi né hafnar borun á tilteknum stað. Það er Skipulagsstofnun, sem er undir umhverfisráðuneyti, sem metur hvort leyfa beri borun á háhitasvæði án umhverfismats eða ekki og það er hún sem úrskurðar hvort borun skuli samþykkt að loknu umhverfismati. Úrskurðir Skipulagsstofnunar eru kæranlegir til umhverfisráðherra sem hefur lokavald í málinu. Þess fyrir utan þarf framkvæmdaleyfi frá viðkomandi sveitarfélagi. Þetta ferli tryggir auðvitað ekki að komið sé í veg fyrir borun á viðkvæmum svæðum en það tryggir að ákvörðunin um það sé byggð á bestu upplýsingum um umhverfisáhrifin og mismunandi sjónarmið komi fram.

Rannsóknaleyfi
Samkvæmt auðlindalögum á eigandi jarðhita undir landi sínu en hefur mjög takmarkaðan rétt til að nýta hann án opinbers leyfis. Honum er þó heimilt að rannsaka hann eða leyfa öðrum að gera það. Eigandi háhitasvæðis getur því borað rannsóknaholu eða heimilað það öðrum, ekki þarf opinbert rannsóknaleyfi. Hins vegar gilda lög um umhverfismat um borunina. Þeim er ætlað að tryggja að landeigandinn geti ekki raskað náttúrunni meir en umhverfisyfirvöld leyfa. Þannig háttar til með bæði dæmin sem Valdimar nefnir, Ölkelduháls og Hverahlíð, bæði eru þau eign Reykjavíkurborgar og hún gæti látið bora þar þótt hún hefði ekki rannsóknaleyfi. Skipulagsstofnun hefur auðvitað þurft að úrskurða hvort umhverfismats var þörf í þessum tilvikum og boranirnar voru samþykktar að afloknu því ferli öllu. Iðnaðarráðherra getur hins vegar veitt hverjum sem er rannsóknarleyfi án tillits til eignarhalds á landi. Það felur í sér rétt til að rannsaka auðlindina hvar sem er innan rannsóknasvæðis óháð því hvert á landið. Leyfinu fylgir oftast forgangur að leyfi til nýtingar á svæðinu í tiltekinn tíma verði slík nýting á annað borð leyfð. Þess vegna er kostur fyrir orkufyritækin að fá rannsóknarleyfi í eigin landi en ekki nauðsyn. Kjarni málsins er að rannsóknarleyfi jafngildir ekki heimild til rannsóknaborana eins og margir virðast halda. Þetta sést ef menn lesa auðlindalögin.

Þekking er grundvöllur ákvarðana

Ég tek undir að þörf er á nýrri sýn á málin og heilstæðri áætlun um nýtingu náttúruauðlindanna og verndun náttúrufyrirbæra. Sú áætlun verður að byggja á staðgóðri þekkingu og á ekki að takmarkast við orkuiðnaðinn. Við þurfum að þekkja hin ýmsu náttúrfyrirbæri og hversu algeng þau eru til að leggja mat á verndargildi. Við þurfum að vita hvar virkjanlegur jarðhiti er til að geta metið hvaða svæði koma til greina til orkuvinnslu og þá er óhjákvæmilegt að bora rannsóknaholur. Það er hins vegar vandalítið að ganga þannig frá umhverfi rannsóknarholna að rannsóknum loknum að þær verði lítið áberandi. Benda má á mörg dæmi um háhitaholur sem eru nánast horfnar, frá öðrum hefur verið gengið snyrtilega en vissulega eru dæmi um frágang sem er ábótavant.

Valdmar bendir réttilega á að lítið fé fáist til rannsókna á náttúrufari á háhitasvæðum. Mestur hluti þess kemur nú frá orkugeiranum, annars vegar frá ríkinu og hins vegar frá orkufyrirtækjum til náttúrufarsrannsókna á svæðum sem þau hafa rannsóknaleyfi á. Með því að leggjast gegn veitingu rannsóknaleyfa er verið að hafna fjármagni til rannsókna og öflunar nýrrar þekkingar og verið að auka hættu á að teknar verði óskynsamlegar ákvarðanir um virkjun, aðra nýtingu eða verndun.