[x]

Orkulindir Íslands og framtíðin

Eftir Ólaf G. Flóvenz. (Grein birt í Morgunblaðinu 4. apríl 2009) 

Í þeirri efnahagskreppu sem nú hrjáir heimsbyggðina og þó einkum Ísland er erfitt að vera bjartsýnn. Ástandið í landinu versnar hratt og fer varla að skána fyrr en eftir 1-2 ár. Við vitum þó að allar kreppur taka enda og vöxtur tekur við. En hvenær og hversu hratt við Íslendingar komust upp úr öldudalnum fer að hluta til eftir því hvenær almennt efnahagsástand í heiminum lagast en þó ekki síður eftir því hvernig við bregðumst við og nýtum tækifæri okkar og auðlindir.

Við erum svo lánsöm að auðlindir okkar felast í því sem heimurinn mun alltaf nauðsynlega þurfa: mat, orku, hreint neysluvatn og þekkingu. Allt þetta eigum við í þeim mæli að við getum miðlað til annarra landa og haft jafnframt atvinnu og hag af.

Orkuþörf heimsins fer hraðvaxandi, einkum vegna örrar iðnþróunar í fátækum ríkjum. Fyrirsjáanlegt er að stærsta hluta þeirrar orku verður að óbreyttu aflað með brennslu jarðefnaeldsneytis. Því fylgir mikil aukning á útblæstri gróðurhúsalofttegunda með tilheyrandi hlýnun jarðar.

Til að koma í veg fyrir að sú ískyggilega heimsmynd, sem dregin er upp af afleiðingum hlýnunar andrúmsloftsins, verði að veruleika sjá menn einkum fyrir sér aukna notkun endurnýjanlegra orkulinda og kjarnorku, orkusparnað og geymslu koltvísýrings djúpt í jarðlögum.

Menn vita líka að ekki er til nein töfralausn á orkuvandanum, engin ein lausn, engin ein endurnýjanleg orkulind mun breyta sérlega miklu. Lausnin felst hins vegar í því að nota blöndu af öllum þeim aðgerðum sem að ofan eru nefndar þar sem hver um sig leggur lítið lóð á vogarskálarnar en sem í sameiningu geta gert mikið. Við Íslendingar erum vel settir í orkumálum. Við eigum gnótt af endurnýjanlegri orku, jarðhita og vatnsorku, sem má framleiða ódýrt á heimsmælikvarða. Vindorka er líka ríkuleg á landinu en hún er þó dýrari til framleiðslu rafmagns. Mikli orka er fólgin í sjávarföllum og ölduhreyfingum hafsins en tækni til að beisla þær er enn skammt á veg komin. Ef til vill eigum við líka olíulindir norður á Jan Mayen-hrygg en fyrir því er engin fullvissa enn. Það sem er í hendi nú er vatnsaflið og jarðhitinn.

Gamalt mat frá árinu 1994 gefur til kynna að afla megi allt að 40 TWh (terawattstundir) af raforku árlega úr vatnsorku og 20 TWh úr jarðhita, sem er um fimmföld raforkuframleiðsla á landinu nú. Þá hefur ekki verið tekið tillit til takmarkana vegna umhverfisverndar. Margt bendir til þess að hvorug þessara talna gefi rétta mynd að raunveruleikanum. Til að vinna 40 TWh úr vatnsorku þarf væntanlega að virkja vatnsföll langt umfram það sem nokkru sinni næðist sátt um að gera af umhverfisástæðum eða vegna annarrar nýtingar vatnsfallanna. Að nokkru leyti gildir hið sama um jarðhitann og vatnsorkuna, sum jarðhitasvæði verða trauðla virkjuð vegna þess að menn vilja halda þeim lítt röskuðum eða nýta þau eingöngu til annars. Gildir þá einu þótt áhrif af virkjun jarðhita geti að mestu verið afturkræf. Matið á mögulegri raforkuvinnslu úr jarðhita er þó engu að síður líklega of lágt. Það tekur fyrst og fremst mið af því að vinna raforku innan þekktra háhitasvæða og ofan 3 km dýpis. Á móti kemur að með því að ná valdi á þeirri tækni sem nauðsynleg er til að nýta dýpri hluta jarðhitakerfanna gæti vinnslugetan vaxið verulega. Það er þó ljóst að leysa þarf ýmis tæknileg vandmál til þess að svo geti orðið. Við höfum dæmi um gríðarlega aflmiklar háhitaholur, sem fá orku sína úr kvikuinnskotum háhitakerfa og ekki er hægt að nýta vegna óhagstæðrar efnasamsetningar vökvans. Verulegar rannsóknir þarf til að þróa þá tækni sem þarf til að beisla þessa orku. Takist það verður ávinningurinn geysimikill, bæði strax en ekki síður til framtíðar.

Við þurfum auðvitað að velta því fyrir okkur hvernig við eigum að nýta þessa orku sem best. Í meginatriðum eru leiðirnar tvær, að nýta orkuna innanlands eða selja hana til útlanda. Fyrri kosturinn krefst þess að við höldum áfram á braut orkufreks iðnaðar á Íslandi. Kostur þeirrar leiðar felst fyrst og fremst í meiri atvinnuuppbyggingu í landinu. Hin leiðin felur í sér að leggja rafkapla til grannlandanna og selja raforku beint inn á neytendamarkað í Evrópu. Það fæst hátt verð fyrir endurnýjanlega orku miðað við það sem fæst fyrir rafmagn til stóriðju á Íslandi en spurningin er þá um flutningskostnaðinn. Þetta var kannað fyrir allmörgum árum og þótti þá of dýrt. Þetta gæti verið að breytast og því er nauðsynlegt að hagkvæmni þess að leggja neðansjávarstreng til Evrópu verði endurmetin. Kannski er krepputími einmitt sá rétti til svona framkvæmda.

Kjarni málsins er að við erum rík að endurnýjanlegum orkulindum og þekkingu til að nýta þær okkur sjálfum og heimsbyggðinni til hagsbóta. Spurningin er bara hvort við viljum.