[x]

Níkaragva

Stuðningur við þekkingu í jarðhitamálum - Geothermal Capacity Building Project (GCBP)
Verkkaupi: Þróunarsamvinnustofnun Íslands (ÞSSÍ)
Samstarfsaðilar: Ráðuneyti orku- og námumála - Ministry of Energy and Mines (MEM)
Staður: Níkaragva
Verkefnisstjóri: Þráinn Friðriksson jarðefnafræðingur
Tímabil: 2008–2012

Markmið

Meginmarkmið verkefnisins er að auka nýtingu jarðhitaauðlinda í Níkaragva til rafmagnsframleiðslu. Verkefnið beinist að því að byggja upp þekkingu á sem flestum sviðum jarðhitamála meðal heimamanna, einkum hjá hinu opinbera en einnig hjá einkafyrirtækjum. 

Lýsing

Íslenskar orkurannsóknir eru aðalráðgjafi Þróunarsamvinnustofnunar Íslands við jarðhitaverkefni ÞSSÍ í Níkaragva. Verkefninu er ætlað að skapa og auka þekkingu heimamanna á jarðhitamálum. Verkefnið beinist sérstaklega að þeim ríkisstofnunum sem koma að jarðhitamálum í landinu og miðar að því að styrkja þær til að sinna þeim skyldum sem að þeim snúa. Verkefnið hvílir á þremur meginstoðum; beinni, tæknilegri aðstoð, styrkjum, tækjakaupum og uppbyggingu rannsóknarstofu, og menntun og þjálfun.

Tæknileg aðstoð

Í beinni, tæknilegri aðstoð felst að sérfræðingar frá ÍSOR og öðrum stofnunum vinna með heimamönnum við úrlausn ákveðinna verkefna sem heyra undir orku- og námamálaráðuneytið og umhverfisráðuneytið. Þessi verkefni eru að ýmsu tagi en eiga það sameiginlegt að viðkomandi ráðuneytum ber lagaleg skylda til að sinna þeim en fagþekking heimamanna er ekki næg. Sem dæmi má nefna yfirferð á skýrslum um yfirborðsrannsóknir, umsagnir um hönnun orkuvera, gerð leiðbeiningarits um mat á umhverfisáhrifum, mat á verndargildi svæða þar sem jarðhitanýting kemur til greina og svo framvegis. Markmið beinnar, tæknilegrar aðstoðar er annarsvegar að vinna þau verk sem fyrir liggja og flýta þannig fyrir framþróun jarðhitanýtingar og hinsvegar að miðla þekkingu til heimamanna. Vegna þessa er reynt eins og hægt er að vinna sem mest af slíkum verkefnum í Níkaragva í samvinnu við heimamenn.

Styrkir, tækjakaup og uppbygging rannsóknarstofu

ÞSSÍ og orku- og námamálaráðuneytið hafa unnið að því að styrkja jarðhitadeild ráðuneytisins. Fyrir sitt leyti hefur ráðuneytið ráðið efnafræðinga og jarðfræðinga til deildarinnar og ÞSSÍ hefur styrkt hana með fjárframlögum til tækjakaupa. Þar vegur þyngst uppsetning á efnarannsóknarstofu en hún hefur verið hönnuð í samráði við ÍSOR. Þá hefur verið komið upp tölvu og Arc-GIS hugbúnaði til að halda utan um landfræðileg gögn.

Menntun og þjálfun

Menntun og þjálfun er vitaskuld mikilvægasti þáttur jarðhitaverkefnis ÞSSÍ í Níkaragva. Menntun og þjálfun fer fram með ýmsum hætti, allt frá stuttum námskeiðum yfir í nám við Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna. Þá munu sérfræðingar frá ÍSOR vinna með sérfræðingum orku- og námamálaráðuneytisins í vettvangsrannsóknum á lítt könnuðum jarðhitasvæðum og aðstoða þá við úrvinnslu og túlkun þeirra gagna sem verður safnað.

Afrakstur

Aukin geta hins opinbera í Níkaragva til að sinna lögboðnum skyldum sínum varðandi jarðhitamál, t.d.:

  • Gerð útboðsgagna.
  • Mat á niðurstöðum yfirborðsrannsókna.
  • Mat á niðurstöðum borana og prófana á borholum.
  • Úrvinnslu og túlkun vinnslugagna.
  • Mat á ástandi jarðhitageyma.
  • Forrannsóknir á jarðhitasvæðum (háhita og lághita).
  • Mat á umhverfisáhrifum jarðhitanýtingar.
  • Setning reglugerða og staðla um jarðhitanýtingu.
  • Uppsetning efnafræðirannsóknarstofu fyrir jarðhitasýni.