[x]

Mælingakerra

Mælingakerra ÍSOR. ÍSOR á og rekur létta yfirbyggða kerru fyrir borholumælingar. 

Mælingakerra ÍSOR er sérútbúin fyrir hita-, þrýsti- og r  ennslismælingar. Við borun hentar kerran fyrir upphitunar-, afkasta- eða eftirlitsmælingar.

Mælingakerran er á tvöföldum öxli. Kerrunni er skipt upp í tvö rými, stjórnrými og spilrými, sem eru aðskilin með hljóðeinangrandi vegg með glugga. Í stjórnrýminu er allur stjórnbúnaðurinn fyrir mælispilið ásamt verkfærageymslu og litlu vinnuborði. Fyrir mælingafólk er tölva, stór skjár, góður stóll að sitja í og bæði kynding og kæling. Þannig getur mælingafólkið stjórnað hitastiginu hvort sem þeir eru við mælingar í miklum hitum í Afríku eða íslensku skammdegi.
Í spilrýminu er sjálft mælispilið sem er knúið af vökvaafli. Vökvadælan er drifin af dísilmótor. Í spilrýminu eru hillur fyrir mælitæki og mælirör, sem er nauðsynlegt að setja á holutoppinn þegar þrýstingur er á honum. Spilið er svokallað vírspil. Það er með mælivír og er ætlað til háhitamælinga með minnistækjum, þ.e. gögnum er safnað í minni tækjanna en þau eru ekki send til yfirborðs eftir mælikapli.

Mælingakerran var tekin í notkun árið 2019. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem ÍSOR eða forverar þess eignast mælingakerru. Fyrsta spilið sem notað var til borholumælinga á Íslandi var á kerru sem Jarðhitadeild Raforkumálaskrifstofu keypti árið 1958. Á árunum sem fylgdu komu mælingabílar til sögunnar og þeim fjölgaði í takt við aukin umsvif í jarðhitaborunum.  

Spilrýmið á mælingakerru ÍSOR.