[x]

Innleiðing blágrænna ofanvatnslausna

Vatnafarskort af Reykjavík. Borgir og þéttbýliskjarnar hafa hvarvetna gríðarleg umhverfisáhrif og valda m.a. mikilli röskun á náttúrulegu ástandi vatnafars, bæði yfirborðsvatns og grunnvatns. Regnvatn og leysingavatn, sem áður seytlaði um lek jarðlög niður til grunnvatnsins, rennur nú af þökum, götum og bílaplönum ofan í holræsakerfið og hverfur með fráveitulögnum út fyrir borgarmörkin og oft skemmstu leið til sjávar. Einungis lítill hluti vatnsins, e.t.v. ekki nema 10%, skilar sér til grunnvatnsins. Afleiðingin er sú að grunnvatnsborð stórlækkar. Þetta fyrirkomulag er hvorki hagkvæmt né umhverfisvænt. Stórborgir víða um heim, og þar með talin Reykjavík, hafa á síðustu árum tekið þá stefnu að innleiða svokallaðar blágrænar ofanvatnslausnir þar sem náttúrulegum ferlum er beitt við meðhöndlun rigningarvatns og leysingarvatns.

Innleiðing blágrænna ofanvatnslausna á að skapa vistvænt borgarumhverfi. Ávinningurinn er margþættur:

  • hreinna ofanvatn
  • hærra grunnvatnsborð
  • grænna umhverfi
  • aukinn líffræðilegur fjölbreytileiki í byggðinni
  • minna álag á fráveitukerfum
  • lægri viðhaldskostnaður á fráveitukerfum

Vatnafarsrannsókn í Reykjavík

Langsniðið A–B nær frá Fossvogi, yfir flugvallarsvæðið og Skólavörðuholt og endar í Rauðarárvík. Lykillinn að árangri í ofanvatnsmálum er traust þekking á jarðfræðilegum aðstæðum og almennu vatnafari og góð vatnafarskort.
Í tengslum við áætlanir um innleiðingu blágrænna ofanvatnslausna í Reykjavík var ákveðið að uppfæra vatnafarskortin af höfuðborgarsvæðinu frá 1991 til 1997. Það er að uppfæra þann hluta vatnafarskortanna sem nær yfir Reykjavík vestan Elliðaáa. Ekki var einungis um einfalda uppfærslu að ræða heldur var einnig stefnt að aukinni nákvæmni, t.d. voru grunn­vatnshæðarlínur þéttar verulega. Dregnar voru saman mælingar á grunnvatnshæð í öllum þeim holum á svæðinu sem unnt var að finna í gagnasöfnum og skýrslum. Í ljós kom að til að fá góða dreifingu á mæliholur og viðunandi mynd af grunnvatns­hæðinni var nauðsynlegt að bora nýjar grunnvatnsholur á völdum stöðum. Níu holur voru boraðar í september 2019 vítt og breitt um borgina. Á grundvelli gamalla og nýrra gagna voru grunnvatnshæðarlínur síðan dregnar með tveggja metra millibili á kort. Í Breiðholti er þó einungis til mæling úr einni holu. Þar þótti því ekki verjandi að draga þéttari grunnvatnshæðarlínur en með 10 m millibili. Hið uppfærða vatnafarskort byggist á mælingum í 71 borholu. Ýmsar mælingar voru gerðar í nýju borholunum, m.a. lektarmælingar. Síritar munu svo skrá breytingar á vatnsborði og hita í þeim á næstu árum. Athygli vekur að hæð grunnvatnsborðs yfir sjávarmáli er svipuð í Vatnsmýri og undir Skólavörðuholti. Annars staðar í borgarlandinu virðist grunnvatnsborð þó fylgja landslagi betur.

Lektarmælingar í borholunum, bæði gamlar og nýjar, sýna að lekt grágrýtisins er mjög misjöfn frá einum stað til annars. Vonast hafði verið til þess að sjá mætti einhverja reglu í dreifingu lektargildanna þannig að unnt væri að skipta lektarflokkum berggrunnsins betur upp en gert var á eldri vatnafarskortum. Engin slík regla kom í ljós. Þegar horft er til blágrænna ofanvatnslausna og sjálfbærra fráveitukerfa í Reykjavík er ljóst að grágrýtið er mikilvægasti viðtaki ofanvatnsins. Víða er alldjúpt niður á grunnvatnsborðið í grágrýtinu og það eykur á vægi þess. Gamla gosbergið undir borginni (Viðeyjarbergið) er lítið eitt þéttara og hefur auk þess litla útbreiðslu. Hörðu setlögin, Fossvogs- og Elliðavogslög, eru þétt og treg til að taka við ofanvatni en beinar lektarmælingar hafa ekki verið gerðar í þeim. Jökulurð er almennt þétt en víðast hvar fremur þunn og hefur litla þýðingu hér. Strandset og manngerðar fyllingar eru aftur á móti lekar myndanir og geta haft umtalsverða þýðingu á ákveðnum svæðum, einkum í Miðbænum. Há grunnvatnsstaða í þeim dregur úr vægi þeirra í vinnu við blágrænar ofanvatnslausnir. Alldjúpt er niður á grunnvatn uppi á holtum innan borgarlandsins. Þótt niðurstöður þessarar rannsóknar bendi til þess að leiðni og lekt bergs sé ekki meiri uppi á holtum en annars staðar í borginni eru holtin ákjósanlegur staður fyrir blágrænar ofanvatnslausnir vegna þess að þar er grágrýtið þykkast og þar geta bæði borholur og óvatnsmettað berg tekið við talsverðu vatnsmagni.


Unnið fyrir Veitur ohf.
2019

Tengiliður: