[x]

Holusjármælingar

Dæmi um holusjármynd úr háhitaborholu.Holusjármælingar eru ný aðferð sem ÍSOR hefur verið að nota við staðsetningu á borholum. Hægt er að kortleggja með meiri nákvæmni stefnu og halla sprungna í holum.

Hefðbundin mælitæki sem notuð eru í jarðhitaborholum á Íslandi eru hönnuð í þeim tilgangi að bregðast við jarðeðlisfræðilegum eiginleikum bergsins, vatnsgeymisins og borholuvökvans. Rannsóknir á rúmfræði sprungna eru mikilvægur þáttur við kortlagningu jarðhitakerfa og gerð hugmyndalíkana þar sem sprungurnar stýra flæði jarðhitavökvans.

Með holusjármælingum eru búnar til myndir sem sýna ferðatíma hljóðbylgju fram og til baka frá mæli í miðju holunnar og að holuvegg og gefa með því lýsingu á eiginleikum bergsins sem borholan sker. Myndirnar gefa upplýsingar um þætti eins og sprungur, brot og gljúpleika bergsins en gefa ekki afdráttarlaust til kynna gerð eða magnbundna tæknilega eiginleika þess. Mælingarnar byggjast á því að sendir sem hringsnýst 5-20 sinnum á sekúndu gefur frá sér hljóð með 1,5 MHz tíðni. Hljóðinu er beint að holuveggnum þaðan sem það endurkastast og lendir í nema sem skrásetur hljóðmerkið 90-360 sinnum á snúningi, eftir því hvernig hann er stilltur. Mæligögnin eru því næst send með mælikapli til móttökubúnaðar í mælingabíl. Út frá þeim má ákvarða bæði vídd holunnar og styrk endurkastsins með mikilli nákvæmni. Skýrustu myndirnar fást því úr mælingum í grönnum holum þar sem mælitækið er vel miðjustillt, og þar sem holuveggur er sléttur.

Með úrvinnslu gagna úr holusjá er mögulegt að kortleggja með nákvæmni stefnu og halla náttúrlegra sprungna sem borholan sker og auk þess sprungna og brota sem myndast hafa við borun og geta gefið upplýsingar um stefnu virks spennusviðs umhverfis holuna á þeim tíma sem hún var boruð.  Á grundvelli þeirrar úrvinnslu má staðsetja borholur sem ætlað er að skera ákveðnar sprungur á ákveðnu dýpi, en hingað til hafa borholur hér á landi í flestum tilvikum verið staðsettar á grundvelli hitastigulsmælinga og hefur þá verið borað beint ofan í hitahámarkið eða mjög nærri því.

Sjá frétt: Staðsetning borholu við Hoffell í Hornafirði.