[x]
24. júní 2021

Ólafur Flóvenz sæmdur heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu

Mynd: Gunnar Geir Vigfússon/mbl.is

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Mynd: Gunnar Geir Vigfússon/mbl.is

Ólafur Flóvenz fyrrverandi forstjóri Íslenskra orkurannsókna var 17. júní sl. sæmdur heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu af forseta Íslands Guðna Th. Jóhannessyni.

Ólafur hóf vinnu við viðnámsmælingar á Jarðhitadeild Orkustofnunar, forvera ÍSOR, sumarið 1974. Hann var einn margra nema í jarðvísindum við HÍ sem tóku þátt í jarðhitarannsóknum á þessum árum mikilla hitaveituframkvæmda um allt land.  Hann vann hjá Orkustofnun öll sumur þar til hann lauk cand real prófi frá háskólanum í Bergen í maí 1979 og hóf þá fullt starf hjá stofnuninni.  Ólafur lauk BS-prófi við HÍ árið 1976 og doktorsprófi í Bergen árið 1985. 

Ólafur var hluti af hópi ungra, nýútskrifaðra jarðeðlisfræðinga sem þróaði aðferðir við jarðhitaleit hér á landi á bernskuárum hennar; mæliaðferðir, tækjabúnað,  úrvinnslu og túlkun en ekki hvað síst jarðhitafræðilega þýðingu niðurstaðna – hvernig þær koma að gagni við frekari skilning á eðli og umfangi jarðhitasvæða. Ólafur hefur komið að flestum greinum jarðeðlisfræðinnar: viðnáms-, skjálfta-, segul- og þyngdarmælingum auk kortlagningar hitastiguls. Hann hefur kappkostað að vera vel heima í öllum greinum jarðhitarannsókna og vinnslu. Hann kom fljótlega að stjórnun, fyrst sem deildarstjóri í jarðeðlisfræði árið 1985 og síðar sem framkvæmdastjóri Rannsóknasviðs Orkustofnunar 1997. Ólafur var forstjóri ÍSOR frá stofnun árið 2003 og þar til hann lét af störfum um mitt ár 2020. 

Ólafur hefur átt drjúgan þátt í að koma á fót samstarfi ÍSOR við jarðfræðistofnanir í Evrópu gegnum styrktarkerfi Evrópusambandsins og aukið þar með skilning okkar á jarðhitakerfum og nýtingu þeirra og í leiðinni kunnáttu og færni starfsfólks stofnunarinnar með samstarfi við erlenda kollega. Ólafur nýtur mikillar virðingar í heimi jarðvísindafólks hér heima sem erlendis, ekki bara sem ágætur stjórnandi heldur einnig fyrir sína yfirgripsmiklu þekkingu á flestum sviðum jarðhita og jarðvísinda.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Mynd: úr einkasafni.