[x]
14. október 2019

Nýtt jarðfræðikort af Mið-Íslandi

Jarðfræðikort af Mið-Íslandi. Íslenskar orkurannsóknir, ÍSOR, hafa gefið út nýtt jarðfræðikort í kortaseríu af gosbeltum landsins með stuðningi frá Landsvirkjun og umhverfis- og auðlindaráðuneytinu.

Nýja jarðfræðikortið er af Mið-Íslandi í mælikvarðanum 1:100 000.

Fjórar megineldstöðvar skipa stóran sess á kortinu. Frá þeim hafa runnið nokkur nútímahraun. Auk þeirra koma hraun frá Langjökuls/Hveravalla- og Bárðarbungu við sögu. Móbergi frá jökulskeiðum er skipt í fjóra aldurshópa en auk þess eru basalthraun og millilög frá hlýskeiðum áberandi. Jarðhiti er sýndur á kortinu ásamt helstu dráttum höggunar og jökulhörfunar.

Kortið byggist á fjölmörgum jarðfræðikortum í stærri mælikvarða auk eldri útgefnum yfirlitskortum. Jarðfræðingarnir Árni Hjartarson, Ingibjörg Kaldal, Kristján Sæmundsson, Magnús Á. Sigurgeirsson og Skúli Víkingsson unnu að gerð kortsins.
Kortahönnuðir eru Albert Þorbergsson og Guðrún Sigríður Jónsdóttir.

Á bakhlið kortsins er bent á 23 valda áhugaverða skoðunarstaði og hopi ísaldarjökulsins af miðhálendinu eru gerð sérstök skil. Textinn er á íslensku og ensku.

Jarðfræðikortið af Mið-Íslandi er fimmta kortið sem ÍSOR gefur út í kortaseríu af gosbeltum landsins en tilurð þess á sér ákveðna sögu. Jarðfræðingar ÍSOR hafa um áratugaskeið unnið víða um land að jarðfræðikortlagningu og kortagerð í stórum mælikvörðum (1:20000 – 1:50000) fyrir verkkaupa sína. Kortin hafa flest verið unnin vegna vatnsafls- og jarðhitavirkjana en einnig vegna skipulags og landnýtingar, umhverfismats, áhættumats og mannvirkjagerðar af ýmsu tagi. Fæst þeirra hafa verið aðgengileg almenningi. Fyrir um áratug réðst ÍSOR því í það verkefni að koma þessum upplýsingum á það form sem nýtist sem flestum til fróðleiks og skemmtunar. Fyrir valinu varð að gera kort til sölu á almennum markaði í mælikvarðinn 1:100.000.  Sá kvarði er hentugur til að koma miklum upplýsingum til skila af stórum svæðum án þess að kortin verði ómeðfærileg. Gömlu kortin hafa verið endurskoðuð, tengd saman og fyllt í eyður með nýrri kortlagningu eða upplýsingum úr fórum jarðfræðinganna. Ákveðið var að byrja á því að taka gosbelti landsins fyrir því þar var til mest af upplýsingum m.a. vegna vinnu fyrir orkufyrirtækin. Sum kortin hafa nær eingöngu verið unnin á kostnað ÍSOR en Landsvirkjun hefur styrkt veglega gerð nokkurra þeirra og umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur styrkt gerð tveggja þeirra síðustu.

ÍSOR hefur gefið út fimm jarðfræðikort af gosbeltum Ísland í mælikvarðanum 1:100 000
•    Jarðfræðikort af Mið-Íslandi (2019)
•    Jarðfræðikort af Austurgosbelti. Tungnaáröræfi (útg. 2018)
•    Jarðfræðikort af Norðurgosbelti. Syðri hluti - Ódáðahraun (útg. 2015)
•    Jarðfræðikort af Norðurgosbelti - Nyrðri hluti (útg. 2012)
•    Jarðfræðikort af Suðvesturlandi (1. útg. 2010 og 2. útg. 2016)

Auk þess gaf ÍSOR út Berggrunnskort af Íslandi í mælikvarðanum 1:600.000 árið 2014.

Hægt er að nálgast öll kortin í nokkrum bókaverslunum Eymundsson og hjá Forlaginu sem og hjá upplýsingamiðstöðvum víða um land. Á jarðfræðikortavefsjá ÍSOR verður jafnframt hægt að skoða kortið og önnur útgefin kort ÍSOR á rafrænu formi.
Jarðfræðikort af Mið-Íslandi.

Bakhlið jarðfræðikortsins af Mið-Íslandi.