[x]
8. nóvember 2011

Mælingabíll og rannsóknarstofa til Dóminíku

ÍSOR sendi í fyrsta sinn sérútbúinn mælingabíl til borholumælinga og færanlega rannsóknarstofu úr landi nú um síðustu helgi.

Um næstu mánaðamót er áætlað að hefja rannsóknarboranir eftir jarðhita á eyjunni Dóminíku í Karíbahafi. Gert er ráð fyrir að boraðar verði þrjár 1000–1200 m djúpar holur. Tvö íslensk fyrirtæki gerðu samning við þarlend stjórnvöld fyrr á árinu um framkvæmdirnar. Jarðboranir  munu sjá um borunina. ÍSOR mun sinna umhverfiseftirliti, jarðfræðiráðgjöf í tengslum við borunina og borholumælingum. Þá munu sérfræðingar ÍSOR einnig meta afköst holnanna og rannsaka efnafræðilega eiginleika jarðhitavökva og gufu í þeim.

Borholumælingabíll hífður um borð í Skaftafell. Ljósmynd frá Jarðborunum.Sérútbúinn mælingabíll frá ÍSOR, sem notaður verður við borholumælingar, og færanleg rannsóknarstofa hefur verið send með skipi til Dóminíku. Þetta er í fyrsta sinn sem ÍSOR sendir slíkan búnað úr landi. Jarðborinn Sleipnir, í eigu Jarðborana, var einnig um borð ásamt ýmsum tækjabúnaði.

Umhverfiseftirlit varðandi borframkvæmdirnar hefst nú í nóvember. Þá mun sérfræðingur frá ÍSOR taka sýni í nágrenni fyrirhugaðra borholna með það fyrir augum að safna grunnupplýsingum sem hægt er að bera saman við sýni sem tekin verða á meðan á verkinu stendur og um nokkurra mánaða skeið eftir að því lýkur.

Á Karíbahafseyjunum hefur jarðhiti verið rannsakaður talsvert. ÍSOR hefur m.a. veitt ráðgjafarþjónustu á Gvadelúpeyjum, Dóminíku og Nevis. Franska jarðfræðistofnunin BRGM hefur rannsakað jarðhitamöguleika á Dóminíku en sú eyja er talin búa yfir mestum jarðhitaforða og þótti heppilegast að hefja rannsóknarboranir þar.

Borholumælingabíll og gámur með rannsóknarstofu um borð í Skaftafelli á leið út til Dóminíku. Ljósmynd frá Jarðborunum.

Dóminíka er virk eldfjallaeyja og þar er umtalsverðan jarðhita að finna á yfirborði. Á eyjunni búa um 70 þúsund manns en stór hluti rafmagns eyjaskeggja er framleiddur með dísilvélum en 20-30% kemur frá vatnsafli. Miklar vonir eru bundnar við borunina en heimamenn vona að í framtíðinni verði jarðhiti nýttur til rafmagnsframleiðslu í stað dísilrafstöðva. Slíkt myndi spara dýmætan gjaldeyri auk þess að vera mun umhverfisvænna.
 
Að sögn Daða Þorbjörnssonar jarðfræðings, sem staðið hefur í undirbúningi verkefnisins, er íbúum Dóminíku annt um umhverfi sitt og þá stórbrotnu náttúru sem þar er að finna og kappkosta að fylgjast vel með þeim áhrifum sem jarðhitaborun kann að hafa á umhverfið. Umfang verksins á mælikvarða þarlendra er mikið og má jafna því við uppbyggingu hitaveitunnar hér á landi á sínum tíma.