[x]
31. janúar 2020

Jarðskorpuhreyfingar á Reykjanesskaga

ÍSOR hefur undanfarna viku tekið þátt í mælingum vegna jarðskorpuhreyfinga á Reykjanesskaga í samstarfi við Jarðvísindastofnun, Veðurstofu Íslands og HS Orku. ÍSOR hefur meðal annars komið að InSAR bylgjuvíxlmælingum, jarðskjálfta- og þyngdarmælingum.

Atburðarrásin er talin hefjast í kjölfar jarðskjálftahrinu í nágrenni Grindavíkur 22. janúar 2020 er síritandi GPS-stöðvar Háskóla Íslands í grennd við Svartsengi sýndu merki um landris rétt vestan við fjallið Þorbjörn. Eins sýndu bylgjuvíxlmælingar úr gervitunglum (InSAR-myndir) frá 18.-24. janúar 2020 áberandi landris. Kvikusöfnun á nokkurra kílómetra dýpi getur verið ein af ástæðum fyrir landrisinu.
ÍSOR hefur um nokkurt skeið unnið úr InSAR mælingum, og m.a. notað gögn frá Sentinel-1 gervitunglinu (InSAR: interferometric analysis of synthetic aperture radar images) frá evrópsku geimvísindastofnunni (ESA). Þetta eru bylgjuvíxlmælingar sem mæla hreyfingar á yfirborði jarðar. Gögn frá Sentinel-1 gervitunglinu berast með u.þ.b. sex daga millibili. Eins og fram kemur á mynd hér fyrir neðan, unnin úr gögnum frá 18. - 30. janúar, er landrisið stöðugt í nágrenni Þorbjarnar, 3-4 cm þar sem það er mest, eins og fram kemur í tilkynningu frá vísindaráði Almannavarna. Vincent Drouin jarðeðlisfræðingur hjá ÍSOR annast úrvinnslu þessara gagna.

Þyngdarmælingar eru ein tegund mælinga til að fylgjast með breytingum sem stafa af massabreytingum í jörðinni. Með samanburði á mældu þyngdargildum við upphaf jarðhræringa og svo aftur seinna í atburðarrásinni má segja til um hvort landrisið stafi af gasi, gufu eða kviku. Í vikunni hefur sérfræðingur ÍSOR þyngdarmælt á landrissvæðinu þar sem síðast var mælt 2014.

ÍSOR rekur nú 13 jarðskjálftamæla á Reykjanesskaganum, sem eru í eigu Tékknesku vísindaakademíunnar í Prag (Czech Academy of Science). Þrír þessara mæla eru staðsettir í nálægð við Þorbjörn og fóru sérfræðingar frá ÍSOR og Veðurstofunni síðasta mánudag til að koma þeim í rauntímastreymi til Veðurstofu Íslands. Það er gert til þess að fá nákvæmari staðsetningar á jarðskjálftavirkni á svæðinu. Á Reykjanesskaga rekur auk þess Veðurstofa Íslands nokkra jarðkjálftamæla og af þeim er einn staðsettur nærri upptökum skjálftavirkninnar við Grindavík.

Enn fremur er ÍSOR að setja upp tvo nýja jarðskjálftamæla vestur af Þorbirni fyrir Veðurstofu Íslands. Þá verða samtals fimm mælar frá ÍSOR í grennd við landrisið í fjarskiptasambandi.

Myndin er unnin úr gögnum frá 18. - 30. janúar. Landris er stöðugt í nágrenni Þorbjarnar. 3-4 cm þar sem það er mest. Úrvinnsla gagna Vincent Drouin jarðeðlisfræðingur, ÍSOR.

Úrvinnsla gagna Vincent Drouin jarðeðlisfræðingur, ÍSOR.

 

 

 

Úrvinnsla gagna Vincent Drouin jarðeðlisfræðingur, ÍSOR.