[x]
9. mars 2021

Jarðskjálftamælar á Reykjanesskaga

ÍSOR vann í sl. viku hörðum höndum að því að tengja jarðskjálftamæla á Reykjanesskaga í rauntímastreymi til þess að hægt væri að gefa skýrari mynd af framvindu jarðhræringa á skaganum. Einnig voru settar upp tvær nýjar skjálftastöðvar fyrir Háskólann í Potsdam í Þýskalandi þann 12. mars.

Frá árinu 2013 hefur ÍSOR í samvinnu við Tékknesku vísindaakademíuna í Prag (Czech Academy of Science) rekið 15 jarðskjálftamæla á austanverðum Reykjanesskaga.

Skjálftamælarnir eru í eigu Tékkanna og voru allir settir upp í rannsóknartilgangi (grænir þríhyrningar á korti). Fljótlega eftir að land tók að rísa við Svartsengi í upphafi árs 2020 setti ÍSOR þrjá tékknesku skjálftamælana í streymi (LAG, LSF og ISS á korti) í samvinnu við Veðurstofu Íslands. Þá voru einnig tveir nýir skjálftamælar fyrir Veðurstofuna settir niður vestan við Eldvörp (RAH og LFE á korti).

Samstarfið við Tékknesku vísindaakademíuna mun halda áfram. Nýhafið er samstarfsverkefni sem gengur undir heitinu NASPMON. Verkefnið hlaut á síðasta ári styrk úr KAPPA, sjóði sem Evrópska efnahagssvæðið (EES) og Noregur standa að.
Fljótlega eftir að mikil jarðskjálftahrina hófst þann 24. febrúar síðastliðinn, með upptök milli Fagradalsfjalls og Keilis, lagði ÍSOR það til við Veðurstofuna og á fundum Vísindaráðs Almannavarna, að fleiri skjálftamælar Tékkanna yrðu tengdir í rauntímastreymi. Voru alls átta skjálftamælar tengdir í síðustu viku (FAF, LAT, ASH, MOH, SEA, KLV, HRG og LHL) en þar af er skjálftamælirinn FAF rétt austan við Fagradalsfjall mjög nærri því svæði þar sem kvikugangurinn er að myndast. Fimm þeirra eru nú tengdir rauntímavöktun Veðurstofunnar og er það gert til þess að fá nákvæmari staðsetningu á jarðskjálftavirkni á svæðinu. Með fleiri skjálftamælum er hægt að staðsetja jarðskjálfta með meiri nákvæmni og einkum og sér í lagi verður dýptarákvörðun betri. Tékkarnir veittu góðfúslegt leyfi til þess að nota gögnin til vöktunar en öll frekari úrvinnsla þeirra, túlkun og birting er í höndum þeirra og ÍSOR.

Eins og sést á kortinu er Reykjanesskaginn mjög vel vaktaður með þéttu skjálftamælaneti. Auk tékknesku skjálftamælanna 15 (grænir þríhyrningar á korti), rekur  Veðurstofan átta jarðskjálftamæla á skaganum sem allir eru í rauntímastreymi (bláir þríhyrningar á korti). Háskólinn í Cambridge, í samstarfi við Háskóla Íslands, rekur 13 skjálftamæla og er einn þeirra nú í rauntímastreymi (ljósgulir þríhyrningar á korti). ÍSOR rekur tvo skjálftamæla fyrir Veðurstofuna vestan við Eldvörp sem báðir eru í rauntímastreymi (appelsínugulir þríhyrningar á korti). Loks rekur ÍSOR tvo skjálftamæla fyrir Háskólann í Potsdam sem einnig eru í rauntímastreymi (hvítir þríhyrningar á korti). Rauði ramminn utan um þríhyrningana táknar þá skjálftamæla sem nú eru í rauntímastreymi. 

Á kortinu sjást sömuleiðis hraun sem runnu á síðasta gosskeiði á Reykjanesskaga, 800-1240 e. Kr., sem Magnús Á. Sigurgeirsson jarðfræðingur sagði frá á vefsíðum ÍSOR í síðustu viku.

Samantekt: Egill Árni Guðnason jarðeðlisfræðingur ÍSOR. Uppfært 16. mars 2021 -brj

Á kortinu eru merktir inn jarðskjálftamælar sem eru í rekstri á Reykjanesskaga.

  Unnið við að tengja skjáfltamæli á Reykjanesskaga í rauntímastreymi. Ljósmynd Egill Árni Guðnason.

Jarðskjálftamælir. Ljósmynd Egill Árni Guðnason.