[x]
8. september 2014

Jarðfræðikortlagning norðan Vatnajökuls

Ef hraunrennsli heldur áfram með svipuðu sniði eins og undanfarna daga mun það fyrst breiðast eitthvað út á eyrarnar sem það komst út á 7. sept.Meðfylgjandi kort nær frá enda nýja hraunsins eins og staða þess var 7. september og austur fyrir Rifnahnjúk.  Jarðfræði  svæðisins er samkvæmt ófullgerðu handriti ÍSOR (jarðfræðikorti af suðurhluta norðurgosbeltisins). Kortgrunnurinn er eftir grunnkortum Orkustofnunar frá 1976 í kvarðanum 1:20000, sem hafa verið vigruð á ÍSOR.  Jaðar nýja hraunsins síðustu þrjá daga er sýndur með svartri hakalínu.

Ef hraunrennsli heldur áfram með svipuðu sniði eins og undanfarna daga mun það fyrst breiðast eitthvað út á eyrarnar sem það komst út á í gær (7. Sept), en  fylgja síðan farvegi Jökulsár á Fjöllum um þrengingar sem byrja rúmum 2 km innan við  ármót Svartár. Þegar hraunið kemst niður fyrir Svartá mun það stífla hana og fossinn Skínandi mun að öllum líkindum hverfa eða láta mjög á sjá (sjá hugleiðingar um fossinn Skínanda í næstu fésbókarfærslu fyrir framan).

Farvegur Jökulsár er þarna mjög afmarkaður af föstu bergi beggja vegna, fyrst í stað í Dyngjufjallahrauni norðan ár og Krepputunguhrauni sunnan ár, en þegar kemur niður fyrir Svartá er grágrýtisdyngjan Vaðalda á vinstri bakka.
Hraunið gæti fyllt farveginn þannig að Jökulsá flæmdist yfir á hraunið og gæti þá í fyrstu runnið um skarðið norðan Rifnahnjúks þar sem vestari vegurinn í Kverkfjöll liggur. Annað skarð er í móbergshæðirnar austan Vaðöldu og norðan Rifnahnjúks og áin gæti eins vel leitað þangað.
Hraunrennsli gæti orðið svo mikið að farvegur Jökulsár nægði ekki. Þá myndi það renna eftir fyrrnefndum lægðum í átt að Rifnahnjúk.

Auðvitað er allt í óvissu um hve mikið hraun á eftir að renna um þetta svæði, en líklegt verður að teljast að það komist niður að fyrrnefndum þrengingum ofan ármótanna við Svartá. Þar mun það valda skammæju lóni á eyrum Jökulsár sem mun fyllast af framburði ef ekki strax í vetur þá á næsta sumri.