[x]

Djúpborun - IDDP

 Einfölduð mynd af háhitakerfi og djúpborunarholu.Djúpborunarverkefnið - Iceland Deep Drilling Project (IDDP)
Verkkaupar: Landsvirkjun, Orkuveita Reykjavíkur, HS Orka, Orkustofnun, Alcoa og Statoil
Erlendir styrktaraðilar: The International Continental Scientific Drilling Program (ICDP) og The National Science Foundation (NSF)
Samstarfsaðilar: ÍSOR, Mannvit og Jarðboranir
Staður: Reykjanes og Krafla
Verkefnisstjóri: Magnús Ólafsson
Tímabil: 2000-

http://www.iddp.is

Markmið

Markmið djúpborunarverkefnisins (IDDP) er að bora dýpra í háhitasvæðin en áður hefur verið gert í þeim tilgangi að kanna tilvist vökva við yfirmarksaðstæður. Það er að bora niður á allt að 4,5 km dýpi þar sem hiti er yfir 374°C og þrýstingur um 221 bar. Þetta er ákveðin prófraun sem útheimtir framsækna bortækni og sérstakan mæli- og upphleypingarbúnað, á sama tíma og jarðfræðin er skoðuð inn að rótum jarðhitakerfanna.

Lýsing

IDDP Holuhönnun ÍSOR hefur verið einn af aðalráðgjöfunum í djúpborunarverkefninu og hefur tekið þátt í verkefninu á öllum stigum allt frá því að hugmyndin kviknaði og til framkvæmdar þess.

Reykjanes

Árið 2006 var borholan RN-17 dýpkuð niður í 3,1 km í tilraunaskyni. Ekki tókst að bora dýpra.

Krafla - IDDP-1

Fyrsta holan í djúpborunarverkefninu IDDP-1 var boruð í háhitakerfið í Kröflueldstöðinni á NA-landi. Holan er staðsett milli Leirhnjúks og Vítis, nokkurn veginn í miðju jarðhitasvæðinu, á norðvesturhluta núverandi borsvæða í Vítismó. Lagt var upp með að holan yrði 4,5 km djúp og var vinnsluhlutinn boraður með 8½" krónu. Borunin, sem hófst í júní 2008, fór fram í fjórum áföngum og þegar henni lauk í júlí 2009 höfðu þrír jarðborar komið að verkinu. Borun IDDP-1 gekk þó ekki eins og áætlað var. Þegar holan var orðin rúmlega 2100 m djúp kom borinn niður á kviku. Áður en ljóst var að sú væri raunin hafði verið borað nokkrum sinnum niður í kvikupoka og reyndist kvika hafa streymt inn í holuna í hvert sinn. Í síðasta skiptið skoluðust brot af snöggkældri kviku upp til yfirborðs sem staðfesti það að kvika væri á ferðinni og hindraði það frekari borun.

Samsetning kvikunnar

Greining á snöggkældu kvikunni sýndi að hún hafði samsetningu bergtegundarinnar rýólíts. Hún hefur þróaða, bergfræðilega samsetningu og vakti það nokkra forvitni þegar haft er í huga að í síðustu goshrinu í Kröflu var eingöngu basaltgos. Súrt berg hefur þó víða fundist á yfirborði í Kröflueldstöðinni auk þess að finnast víða á ýmsu dýpi í borholum á svæðinu. Tilvist þess er vísbending um möguleg grunnstæð innskot af súru bergi og munu áframhaldandi rannsóknir miða að því að skilgreina stærð og aldur umræddra innskota og hvernig þau falla inn í nýleg eldsumbrot, eins og t.d. í Kröflueldum 1975–1984.

Lokafrágangur IDDP-1 holunnar

Þegar ljóst var að ómögulegt væri að bora dýpra við þessar aðstæður var unnið að lokafrágangi holu IDDP-1. Öflug æð var í holunni skammt ofan við innskotið niðri við botn og var hún því fóðruð með steyptri fóðringu niður á 1958 m dýpi og þar fyrir neðan var settur gataður leiðari niður á 2080 m dýpi. Þannig var haldið opnum möguleikanum á að rannsaka og meta leka svæðið í botni holunnar sérstaklega. Upphitunartímabil IDDP-1 hófst 11. ágúst 2009 og síðan þá hefur hiti og þrýstingur verið mældur reglulega. Það er augljóst að holan er of grunn til að fá yfirmarksaðstæður þar sem hiti þarf að vera 374°C og þrýstingur yfir 221 bar. Eftirlitsmælingar gefa þó til kynna að í neðri hluta jarðhitakerfisins, í nánd við kvikuinnskot, geti hitinn orðið hærri en 350°C við 150 bar.


 

Tengiliður:
Magnús Ólafsson
Jarðefnafræðingur

528 1537
899 5970
mo@isor.is