[x]

Blekkingar um Hellisheiðarvirkjun

Eftir: Ólaf G. Flóvenz. (Grein, athugasemd vegna greinar Valdimars Leó Friðrikssonar, birt í Morgunblaðinu. 6.nóvember 2006).
 

ALÞEKKT er að áróðursmeistarar beita ýmsum brögðum til að blekkja fólk í þágu þess málstaðar sem þeir boða. Algengt er að þeir kveði hálfkveðnar vísur og reyni að tengja saman beint eða óbeint í hugum fólks lítt skylda hluti eða atburði í von um að fólk dragi rangar ályktanir en þeim þóknanlegar. Önnur aðferð er að beita ljósmyndatækni til að draga fram eitthvað allt annað en þann raunveruleika sem við blasir. Dæmi um hvort tveggja gat að líta í Lesbók Morgunblaðsins 21. október, daginn sem Hellisheiðarvirkjun var vígð.
Með grein Illuga Gunnarssonar á miðopnu Lesbókar birtist stór mynd og undir henni stóð: "Á Hellisheiði, "Mér er til dæmis lífsins ómögulegt að skilja hvernig framkvæmdir Orkuveitu Reykjavíkur komust í gegnum umhverfismat". Tilvitnunin er í setningu í greininni sem að öðru leyti fjallar nær ekkert um Hellisheiðarvirkjun. Myndin sýnir í aðalatriðum þrennt; þéttan skóg af ljótum háspennulínum, reykjarmökk og kolsvart landslag. Myndin gefur til kynna ljótleika, drunga og mengun og líkist helst mynd af iðnmenguðum svæðum Sovétríkjanna sálugu. Í myndtextanum er þetta síðan tengt við Hellisheiðarvirkjun. Lesendur eiga væntanlega að draga þá ályktun að þetta sé það sem komst á óskiljanlegan hátt í gegnum umhverfismat vegna Hellisheiðarvirkjunar.

Við þetta er ýmislegt að athuga. Í fyrsta lagi er myndin tekin með aðdráttarlinsu sem þjappar raflínunum saman í þéttan skóg hjá reykjarmekkinum. Þetta á lítið skylt við það sem blasir við augum á þessum stað þótt vissulega séu raflínur yfir Hellisheiði lítt til prýði. Í öðru lagi tengjast þessar háspennulínur Hellisheiðarvirkjun lítið, þetta eru aðfærsluæðar raforku til höfuðborgarsvæðisins frá virkjunum fyrir austan Fjall! Vissulega mun Hellisheiðarvirkjun tengjast inn á einhverja þeirra en línurnar voru þarna fyrir, óháð Hellisheiðarvirkjun. Í þriðja lagi er sýndur reykjarmökkur sem ekki sést hvaðan kemur en gefur til kynna að verið sé að menga andrúmsloftið. Þetta er í raun borhola sem verið er að aflmæla og blæs nær hreinni vatnsgufu á meðan. Örlítið fylgir þó með af lofttegundundum koltvíoxíði og brennisteinsvetni. Holan verður síðar tengd virkjuninni og útblásturinn hverfur. Orkuveitan stefnir að því að dæla niður því litla koltvíoxíði sem kemur með gufunni og binda það í jarðlögum, nokkuð sem er á heimsmælikvarða einstakt framtak til mengunarvarna. Í fjórða lagi er jörðin á myndinni látin líta út eins og kolsvört iðnmenguð klessa en í raun er hún mosagræn og brúnleit ómenguð íslensk náttúra.

Sú mynd sem þarna er dregin upp af Hellisheiðarvirkjun er víðs fjarri öllum raunveruleika. Staðreyndin er að við byggingu virkjunarinnar er afar mikið tillit tekið til umhverfismála, orkuframleiðslan er endurnýjanleg, mengun hverfandi lítil og mannvirkjum að talsverðu leyti komið fyrir á landi sem þegar var raskað af öðrum. Þá eru framkvæmdirnar eru að mestu afturkræfar kjósi menn að hætta þarna orkuvinnslu í framtíðinni og fjarlægja mannvirki. Hitt er svo annað að mér finnst eins og Illuga að betur hefði mátt dylja röralagnir í grennd við Suðurlandsveg og þykir af þeim lítil prýði. En menn skyldu forðast að "fordæma skóginn" þótt þeir finni "laufblað fölnað eitt" svo vitnað sé til þekktrar stöku Steingríms Thorsteinssonar. Mér er til efs að það finnist mörg fyrirtæki í þessu landi sem vinna umhverfismálum jafnmikið gagn og Orkuveita Reykjavíkur og vandi betur til umgengni um landið.

Ekki veit ég hvort Illugi valdi myndina með greininni eða hvort valið var Morgunblaðsins. En mér finnst að hvorki stjórnmálamaður né dagblað, sem vilja láta taka sig alvarlega og njóta trausts, eigi að beita blekkingum af þessu tagi.

Höfundur er jarðeðlisfræðingur og forstjóri Íslenskra orkurannsókna.