[x]

39. Hvalfjarðareyri - eyri, baggalútar, geislasteinar og berggangar

HvalfjarðareyriÁ sunnanverðri Hvalfjarðarströnd norðan við Eyrarfjall er Hvalfjarðareyri. Meðfram ströndinni er að finna mikinn fjölda síðsteinda (seólíta). Bergið er mjög ummyndað af völdum bergganga frá Kjalarneseldstöðinni sem skera jarðlagastaflann.  Þeir koma vel fram í Tíðarskarði við mynni fjarðarins og áfram inn með ströndinni. Önnur þyrping bergganga er svo austan og norðan við Hvalfjarðareyri en þeir eru ættaðir frá Hvalfjarðareldstöðinni sem liggur nærri Ferstiklu norðan við fjörðinn.

Síðsteindir myndast við ummyndun bergsins þegar heitt vatn leikur um það. Vatnið leysir upp frumsteindir bergsins en í staðinn falla út síðsteindir í sprungur og holrými. Dæmi um seólíta sem finna má með ströndinni eru:

  • kabasít
  • stilbít
  • analsím
  • mesólít
  • thomsonít
  • heulandít

Á Hvalfjarðareyrinni er einnig einn aðalfundarstaður baggalúta á suðvestur horni landsins. Baggalútar eða kýlingar nefnast smákúlur sem myndast þar sem gas hefur orðið innlyksa í líparíthraunum eða flikrubergi. Nálar af feldspati og kvarsi vaxa út frá kristalkími. Þeir eru ýmist stakir eða samvaxnir tveir eða þrír hér og þar í kvikunni. Baggalútar eru yfirleitt frá 0,5-3 cm í þvermál en geta þó orðið enn stærri. Baggalútarnir hafa rofist út úr líparíthraunlögum sem mynda jarðlögin með ströndinni austan við eyrina. 

  

Aðgengi

Staðsetningarkort af Hvalfjarðareyri.Aðgengi að Hvalfjarðareyri er góð. Hægt er keyra niður af þjóðveginum vestan við eyrina niður á slóða. Þar er best að leggja og ganga eftir slóðanum. Einnig er hægt að leggja ofan við eyrina hjá Hestaþingshól og ganga niður slóða sem þar er. Ferðamenn verða að huga að flóði og fjöru þegar farið er um eyrina og ströndina.

Sigurður Garðar Kristinsson, 2010