Endurnýjun aðildar að samtökum 37 jarðfræðistofnana í Evrópu, EuroGeoSurveys.

ÍSOR hefur endurnýjað aðild sína að samtökum 37 jarðfræðistofnana í Evrópu, EuroGeoSurveys, og styrkir þannig stöðu Íslands í samfélagi evrópskra rannsóknaraðila í jarðvísindum. Auk þess er ÍSOR aðili að EERA-European Enegery Research Alliance, https://www.eera-set.eu/ samtök rannsóknaraðila í orkumálum, með áherslu á jarðhita. Meðal annars á þessum vettvangi tekur ÍSOR þátt í fjölmörgum rannsóknarverkefnum sem nýtt eru til að þróa þekkingu og þjálfa starfsfólk, til að takast á við áskoranir framtíðarinnar.
Vegna fyrirsjáanlegs orkuskorts í Evrópu er mikill áhugi á að auka þar nýtingu jarðhita og annarra endurnýjanlegra orkugjafa. Mikill þungi verður því á næstu misserum á sviði grunnrannsókna og samvinnu rannsóknarstofnana, háskóla og iðnaðar í Evrópu á sviði samræmingar jarðvísindalegra gagna og birtingu þeirra til ákvarðanatöku um orkuöflun og -nýtingu.
GSEU (Geological Survey for Europe) er 5 ára rannsóknarverkefni sem hófst í september og styrkt er af EU Horizon 2020. https://eurogeosurveys.org/gseu/
Stefnt er að því að skapa sameiginlega þjónustu jarðfræðstofnana Evrópu sem styður við markmið til að mæta áskorunum í orku og loftslagsmálum. Framlag ÍSOR verður þar á sviði jarðhitaþekkingar, grunnvatnsauðlinda og vindorku á strandsvæðum.

Frá Kanarí til Kasmír

Í grein Morgunblaðsins í dag (27 nóvember 2022) er rætt við Bjarna Richter, jarðfræðing og sviðsstjóra viðskiptaþróunar og markaðsmála hjá ÍSOR um erlend verkefni sem ÍSOR vinnur að. Þar er m.a. fjallað um verkefni á Kanaríeyjum og í Kasmír á Indlandi.
Verkefnið á Kanarí felur í sér að “…skoðuð eru jarðhitasvæði á þremur eyjum, þar á meðal vinsælum ferðamannastöðum Íslendinga, það er að segja Tenerife og Gran Canaria, en einnig á La Palma þar sem eldfjall gaus á síðasta ári”.
Í greininni kemur einnig fram að mikið samstarf er milli íslenskra aðila sem búa að áratuga reynslu og þekkingu á jarðhitarannsóknum og nýtingu hans á Íslandi. Mikilvægt er að nýta þá þekkingu og vinna þannig saman að markmiðum stjórnvalda Íslands og heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.

ÍSOR tekur þátt í jarðhitarannsóknum á Kanarí eyjum

ÍSOR skrifaði nýlega undir samning við spænska orku- og olíufyrirtækið Repsol S.A um jarðhitaúttekt á þremur af Kanaríeyjunum, þ.e. La Palma, Tenerife og Gran Canaria. Töluvert af jarðvísindalegum rannsóknum hafa verið gerðar á eyjunum þremur á undanförnum árum. Jarðfræði eyjanna er vel kortlögð, efnasýni hafa verið tekin úr lindum og hverum og þau efnagreind. Jarðeðlisfræðilegar aðferðir hafa verið notaðar til að kortleggja einnig jarðhitann og uppruna hans á eyjunum, þá helst viðnáms-, þyngdar -og segulmælingar. Nokkrar rannsóknarholur hafa verið boraðar og þær mældar í bak og fyrir.

Hlutverk ÍSOR er að fara yfir öll gögn sem Repsol á og hefur aðgengi að, meta gæði þeirra og gagnsemi við að afmarka svæði til frekari rannsókna og mögulegrar nýtingar. ÍSOR mun einnig aðstoða við gerð hugmyndalíkana, staðsetja borholur, ásamt því að gefa mat á stærð jarðhitasvæðanna og mögulega afkastagetu. Verkið á að taka um fimm mánuði og á að ljúka fyrir lok febrúar 2023.