Sumarið 2005 fundu jarðfræðingar frá ÍSOR og Jarðvísindastofnun Háskólans fornan ís undir s.k. S-lagi suðvestan undir móbergsfellinu Kolli í Öskju. Lag þetta finnst víða sem öskulag neðst í jarðvegi á Norðausturlandi og sem vikur í fjöllum kringum Öskju. Það myndaðist í þeytigosi í Öskju fyrir um 10.300 árum. Vikurlagið við Koll er um einn metri á þykkt og undir því hefur ísinn varðveist í allan þennan tíma. Þar er hann rúmur metri á þykkt og undir honum er svart öskulag, gegnfrosið, en þykkt þess er óþekkt.Í byrjun september fóru nokkrir starfsmenn frá ÍSOR og Jarðvísindastofnun Háskólans í Öskju til að ná sýni af ísnum í þeim tilgangi að kanna efnasamsetningu hans. Reynt verður að aldursgreina vatnið í ísnum, mæla vetnis- og súrefnissamsætur og bera saman við samsætur í regnvatni nú og í hvera- og laugavatni á Norðausturlandi. Einnig er mikill áhugi á því að mæla samsetningu á lofti eða gasi í loftbólum í ísnum. Þær mælingar geta gefið upplýsingar um samsetningu andrúmslofts á þeim tíma sem ísinn myndaðist.Ef ísinn reynist eins gamall og líkur benda til þá er það einsdæmi hér á landi.