9. Hljóðaklettar

Hljóðaklettar í Jökulsárgljúfrum.Hljóðaklettar eru gígfyllingar, ílangar í sprungustefnu, sem Jökulsá hefur sorfið gjallið utan af í hlaupum. Þeir eru partur af gígaröð sem er um 3 km á lengd. Á norðurhelmingi hennar hafa gígarnir varðveist, að vísu nokkuð laskaðir eftir ágang árinnar og jökulbarð virðist hafa náð yfir þá austan frá. Í Hljóðaklettum er stuðlaberg, sveipótt nokkuð og snúa stuðlabeltin óreglulega. Hraun verður ekki rakið nema örstutt norður frá gígunum og er eitthvað yngra en hraunið úr Stóravíti sem undir því er. Aldur þessa goss er óviss en líklega er það af líkum aldri og Randarhólar við Hafragil og þá um 11-12.000 ára. Líklega tengist Hljóðaklettagosið Kröflukerfinu.

 

 

Aðgengi

Staðsetningarkort af Hljóðaklettum.Hljóðaklettar eru merktir nr. 9 á kortinu.