8. Stampagígaröðin

Sampur, gígur í yngra Stampahrauni.Yngra Stampahraun er eitt af hraunum Reykjaneselda 1210-1240 en þá runnu fjögur hraun á Reykjanes- og Svartsengiskerfunum og neðansjávargos urðu í sjó undan Reykjanesi.

Stampagígaröðin er alls um 4 km löng og er flatarmál hraunsins 4,6 km2. Á norðurenda hennar eru tveir allstæðilegir  „stamplaga“ gígar sem heita Stampar. Sunnar á gígaröðinni eru nokkrir stæðilegir gígar sem bera nöfn, s.s. Miðahóll, Eldborg dýpri og Eldborg grynnri, en allir þessir gígar voru notaðir sem mið við fiskveiðar fyrr á tímum. Að öðru leyti eru gígar Stampagígaraðarinnar lágir klepragígar og fremur lítt áberandi.
  

Í rituðum heimildum er getið að minnsta kosti sex gosa í sjó við Reykjanes á tímabilinu 1210-1240. Á Reykjanesi hafa fundist fjögur gjóskulög í jarðvegi sem skjóta stoðum undir þessar frásagnir. Einnig eru þekkt fjögur hraun sem runnu á þessu tímabili, það er Yngra Stampahraun, Eldvarpahraun, Illahraun og Arnarseturshraun. Hefur þessi goshrina verið nefnd Reykjaneseldar 1210-1240. Eldarnir byrjuðu með gosi í sjó við suðvesturströnd Reykjaness. Þar hlóðust upp tveir gjóskugígar af hverfjallsgerð með um 500 metra millibili. Er drangurinn Karl hluti af gígbarmi yngri gígsins. Báðir gígarnir eru nú mikið eyddir vegna rofs en hlutar þeirra eru þó varðveittir á ströndinni. Þar má sjá allt að 20 metra þykka gjóskustabba sem vitna um tilvist gíganna. Í framhaldi af gjóskugosunum rann Yngra Stampahraunið.

Staðsetningarkort af Stampagígaröðinni

Aðgengi

Ekið er eftir Nesvegi (425) um 2,5 km til norðurs frá Rauðhólum. Örstutt ganga er frá vegi í Stampana.

Magnús Á. Sigurgeirsson, 2010

Ítarefni

  • Magnús Á. Sigurgeirsson (1992). Gjóskumyndanir á Reykjanesi. Meistaraprófsritgerð við Háskóla Íslands, 114 bls.
  • Magnús Á. Sigurgeirsson (1995). Yngra Stampagosið á Reykjanesi. Náttúrufræðingurinn, 64, 211-230.
  • Sigmundur Einarsson og Haukur Jóhannesson (1989). Aldur Arnarseturshrauns á Reykjanesskaga. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar, 8, 16 bls.