7. Sandfellsdalur - dyngjugígur

Sandfellsdalur. Horft til norðvesturs eftir gígbarminum.Stærstu hraunin á Reykjanesskaga eru dyngjur. Þær elstu og stærstu, hvor um sig yfir 100 km2, eru Sandfellshæð og Þráinsskjöldur. Þær mynduðust á síðjökultíma fyrir um 14.000 árum. Þá var sjávarstaða næstum 30 m lægri en nú.

Gígurinn í Sandfellshæð heitir Sandfellsdalur. Hann er næstum kringlóttur, mest 450 m yfir barminn. Í honum hefur verið hrauntjörn. Hraun úr henni hefur runnið um hellakerfi. Sums staðar hefur ollið upp úr því, t.d. þar sem röð af hraunbólum vísar til vesturs með Langhól og Berghól stærstum. Í lok gossins hefur sigið í tjörninni og hallandi spildur hangið eftir innan á barminum. Hraun hefur einnig runnið yfir gígbarminn. Næst honum er það fremur frauðkennt og þunnbeltótt en fjær eru beltin þykkri og bergið þéttara.

Dyngjugos standa lengi, jafnvel í nokkur ár þau stærstu. Bergið í þeim er jafnan ólivínríkt. Um það bil 5 km breiður sigdalur gengur yfir Sandfellshæð. Jaðarmisgengið suðaustan megin skerst yfir gíginn í henni og heldur áfram norðaustur yfir Sandfell, Lágafell og Þórðarfell. Það sést ekki í um það bil 2000 ára hrauni suðvestan við gíginn en kemur aftur fram í eldri hraunum úti á Reykjanesi, svo sem Háleyjabungu.

 

Aðgengi

Staðsetningarkort af Sandfellsdal

Þangað er stutt að ganga frá veginum milli Svartsengis og Reykjaness. Vegurinn er fær flestum bílum öðrum en þeim lægstu.

Kristján Sæmundsson, 2010