6. Eldvörp - gígaröð frá 13. öld

Eldvörp. Horft til norðausturs. Slóðin milli Svartsengis og Reykjaness sést ofarlega á miðri mynd.Eldvarpahraun er eitt þeirra hrauna sem runnu í Reykjaneseldum á tímabilinu 1211-1240. Önnur hraun frá þessum eldum eru Stampahraun, Illahraun og Arnarseturshraun. Suðurendi Eldvarpagígaraðarinnar er við vestanvert Staðarberg, þar sem hraunið hefur runnið í sjó, en í norðri endar hún tæpa 2 km vestur af Bláa lóninu. Hún er alls um 10 km löng en nokkuð slitrótt. Mest hraunframleiðsla hefur verið í Eldvörpum, skammt sunnan miðju gígaraðarinnar.

Flatarmál Eldvarpahrauns er um 20 km2. Gígarnir á Eldvarpagígaröðinni eru gjall- og klepragígar og eru sumir þeirra allstæðilegir. Hraunið er ýmist slétt helluhraun, uppbrotið helluhraun eða úfið kargahraun.

Jarðhiti er í Eldvörpum sem nýttur er til orkuframleiðslu í Svartsengi.

Arnarseturshraun og Illahraun eru talin vera frá því stuttu eftir 1226, líklega nokkrum árum, en þau runnu bæði inn á Eldvarpahraun. 

 

Aðgengi

Staðsetningarkort af EldvörpumEkið er eftir nýjum vegi  sem liggur í ótal bugðum vestur fyrir Bláa lónið og beygt af honum til vesturs yfir á veginn sem liggur til Reykjaness, meðfram pípulögn sem liggur að niðurdælingarholum Hitaveitu Suðurnesja í Skipstígshrauni. Vegurinn liggur áfram vestur milli Eldvarpagíganna.
Einnig má aka eftir afleggjara til suðurs skammt austan við gígaröðina, yfir svart brunasvæði og endar hann við borholu rétt vestan við Eldvarpagígana. 

Ítarefni

  • Jón Jónsson (1978). Jarðfræðikort af Reykjanesskaga (1:25 000). Orkustofnun OS-JHD-7831, 303 bls. (skýrsla ásamt kortum).
  • Sigmundur Einarsson og Haukur Jóhannesson (1989). Aldur Arnarseturshrauns á Reykjanesskaga. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar, 8, 16 bls.

Magnús Á. Sigurgeirsson, 2010