5. Kerlingarbás - öskugígur og berggangar

KerlingarbásVið Kerlingarbás, sem er grunnur vogur næst sunnan Önglabrjótsnefs, hafa skapast einstakar aðstæður til að skoða innviði eldgíga af ýmsum gerðum. Gígaraðir á vestari gosrein Reykjaness, sem kennd hefur verið við Stampa, liggja að sjó við Kerlingarbás. Þar sem gossprungurnar opnuðust í sjó  hlóðust upp gjóskukeilur en gjall- og klepragígar þar sem sjór komst ekki að gosrásinni.

Leifar þriggja gjóskugíga af hverfjallsgerð má sjá við ströndina. Þeir tilheyra Eldri og Yngri Stampagígaröðunum sem liggja um 4 km inn til landsins frá Kerlingarbás. Eldra Stampagosið varð fyrir tæpum 2000 árum síðan en það yngra á 13. öld. Gosmyndanir Stampagígaraðanna eru mest áberandi við Kerlingarbás en þó sér þar í eldri myndanir í sjávarmálinu, bæði túff og hraun.

Norðan til í básnum er þverskorinn gjallgígur á Eldri Stampagígaröðinni. Þar má m.a. sjá bergstólpa í fjörunni sem er hluti af gosrás hans. Gígur þessi ber nafnið Kerling (kemur fram í þjóðsögum ásamt dranginum Karli).

Eftir að virkni á Eldri Stampagígaröðinni lauk tók við goshlé á Reykjanesi í um 1100 ár.

Yngra Stampagosið hófst snemma á 13. öld á gossprungu sem lá um 150 m suðaustan Eldri Stampagígaraðarinnar. Í upphafi gossins hlóðust upp tvær gjóskukeilur af hverfjallsgerð við ströndina. Aldursmunur þeirra er vart meiri en nokkrir mánuðir. Gígrimar beggja gíganna náðu inn á land og eru að hluta varðveittir.

Yngra Stampahraunið rann upp að gígrimunum og markar hraunbrúnin hringlaga útlínur þeirra. Við miðjan Kerlingarbás má sjá tvo þunna bergganga sem liggja upp í gegnum yngri gjóskukeiluna, í Yngra Stampahraunið. Gefst þarna gott tækifæri til að skoða tengsl hrauns við aðfærsluæðar þess.

Um 150 m breið sigdæld liggur um miðjan Kerlingarbás, með skarpa brún norðan megin. Rofmislægi koma fram beggja vegna sigdældarinnar. Við Kerlingarbás má fá góða mynd af gosvirkni við mörk lands og sjávar. 

Aðgengi

Staðsetningarkort af KerlingarbásiGengið er vestur með ströndinni frá bílastæði við Valahnúk. Gangan er tæpur km hvora leið.

Magnús Á. Sigurgeirsson, 2010

Ítarefni

  • Magnús Á. Sigurgeirsson (1992). Gjóskumyndanir á Reykjanesi. Meistaraprófsritgerð við Háskóla Íslands, 114 bls.
  • Magnús Á. Sigurgeirsson (2004). Þáttur úr gossögu Reykjaness. Gosskeið fyrir um tvö þúsund árum. Náttúrufræðingurinn 72, 21-28.