40. Botnsdalur - grafinn móbergshryggur

Móbergshryggur í Botnsdal. Ljósmynd Sigurður G. Kristinsson.Innst í Hvalfirði er að finna grafinn móbergshrygg. Hryggurinn kemur fram í miðju Múlafjalli sem skilur á milli Brynjudals og Botnsdals. Móbergshryggurinn hefur myndast undir jökli á jökulskeiði snemma á kvarter. Mörkin milli tertíer og kvarter (2,58 milljóna ára) liggja þarna utar með ströndinni og neðar í staflanum sem sýnir að hryggurinn er um 2,5 milljóna ára gamall. Hann liggur þvert undir Múlafjallið með NNA-stefnu sem er algeng stefna misgengja á svæðinu. Móberghryggurinn kemur best fram í Botnsdal. Þar má sjá hvernig hryggurinn rís hæst í miðju og hvernig hraunlög frá yngri dyngjugosum hafa runnið upp að honum og að lokum kaffært hann.

 

Aðgengi

Staðsetningarkort yfir Botnsdal.Ekið er sem leið liggur inn í Botnsdal að gamla söluskálanum. Þaðan er stutt ganga að hryggnum og upp á Múlafjall.

Sigurður Garðar Kristinsson, 2010