4. Stöplar og Vedde-askan

Stöplar og Vedde-askan.Eitt mesta eldgos frá ísaldarlokum hér á landi varð í Mýrdalsjökli á miðjum Yngri-Dryas kuldakaflanum fyrir 12.000 árum. Aska úr þessu gosi finnst víða á Norðurlandi, oftast innan um sand og möl, enda hefur hún fallið á jökul og skolast til þegar hann bráðnaði. Einn slíkur staður er ofan við Heiðarbót í Aðaldal þar sem heita Stöplar. Þar hefur Skildingahraun runnið ofan frá Reykjaheiði um Geldingadal að jaðri jökuls sem lá í Aðaldal. Hraunið myndar þar allháa brún. Á Stöplum er sandnáma þar sem skoða má Vedde-öskuna, misjafnlega mikið blandaða sandinum, en hún sker sig úr af ljósum lit og blöðróttum glerkornum. Vikurblandaður sandurinn í námunni þykir henta vel til ræktunar í gróðurhúsum.

 

 

 

Aðgengi

Staðsetningarkort af Stöplar og Vedde-askan.