4. Háleyjabunga - dyngjugígur

Háleyjabunga - dyngjugígurHáleyjabunga er lítil hraundyngja austast á Reykjanesi. Í hvirfli dyngjunnar er allstór hringlaga gígur, um 25 m djúpur.Hraunin eru úr bergtegundinni píkrít, sem er mjög auðugt af steindinni ólivín. Í handsýni má auðveldlega sjá mikið af flöskugrænum ólivíndílum. Píkrít flokkast sem frumstætt berg og er talið eiga upptök í möttli jarðar.

Mesta sjáanlega þvermál dyngjunnar er um 1 km en hún er umlukt yngri hraunum á alla kanta nema suðaustanmegin, þar sem hún liggur að sjó. Í sjávarhömrunum er auðvelt að skoða byggingu dyngjunnar og einnig sést vel hvernig yngri hraun hafa runnið upp að henni. Píkríthraun eru talin elst hrauna á Reykjanesskaga, frá því skömmu eftir að ísaldarjöklana tók að leysa. 

 

 

Aðgengi

Staðsetningarkort af HáleyjabunguInnan við eins km löng ganga er frá Nesvegi (425) að gígnum í Háleyjabungu og stutt þaðan niður að strönd þar sem innviðir dyngjunnar sjást vel.

  

Ítarefni

  • Jón Jónsson (1978). Jarðfræðikort af Reykjanesskaga (1:25 000). Orkustofnun OS-JHD-7831, 303 bls. (Skýrsla ásamt kortum)

 

 

 

 

Magnús Á. Sigurgeirsson, 2010