35. Stokkseyri og Eyrarbakki - Þjórsárhraunið mikla

Þjórsárhraun við Stokkseyri.Þjórsárhraunið mikla er stærsta hraun á Íslandi, bæði að flatarmáli og rúmmáli, og stærsta hraun sem vitað er um að komið hafi upp í einu gosi á jörðinni á nútíma (þ.e. frá lokum síðasta jökulskeiðs fyrir um 11.500 árum). Þykkt Þjósárhrauns er víða 15-20 m og um 40 m þar sem það er þykkast. Flatarmál er áætlað 974 km², meðalþykktin er 26 m og rúmtakið því 26 km3.

Þjórsárhraunið er gert úr dílabasalti þar sem stórir, ljósir feldspatdílar sitja í dökkum, fínkorna grunnmassa. 

Þjórsárhraun tilheyrir flokki hrauna sem nefnast Tungnárhraun. Hraunið kom upp í eldstöðvum á Veiðivatnasvæðinu fyrir 8700 árum (um 6700 f. Kr.). Eldstöðvarnar eru horfnar undir yngri gosmyndanir og á um 70 km löngum kafla niður með Tungná og Þjórsá er hraunið nær alstaðar hulið yngri hraunum. Gloppubrún á Landi myndar framjaðar þessa yngra hraunaflæmis en þar fyrir neðan þekur Þjórsárhraunið miklar víðáttur í Landsveit og Gnúpverjahreppi, á Skeiðum og í Flóa. Þjórsá og Hvítá/Ölfusá streyma niður með jöðrum hraunsins að austan og vestan. Á 17. öld færðist Ölfusárós til. Áður hafði áin fallið til sjávar á Hafnarskeiði en fluttist 2-3 km til austurs í núverandi ós sem er inni á hrauninu.

Þjórsárhraunið myndar ströndina frá Þjórsárósi og vestur fyrir Ölfusárós en þetta eru um 25 km. Sjór virðist hafa staðið 15 m lægra er hraunið rann en hann gerir nú. Við hækkandi sjávarborð hefur sjórinn flætt inn yfir hraunjaðarinn sem nú er neðansjávar mörg hundruð metra úti fyrir ströndinni.

Selfoss, Eyrarbakki og Stokkseyri standa á Þjórsárhrauninu.

  

Aðkoma

Staðsetningarkort yfir sjávarhluta Þjórsárhrauns við Stokkseyri.Skemmtilegt er að skoða sjávarhluta Þjórsárhrauns úti fyrir sjóvarnargörðunum á Stokkseyri. Á stórstraumsfjöru sést hvar aldan brotnar á hraunjaðrinum langt úti fyrir en við ströndina eru álar og rásir inni á milli þangi vaxinna hraunskerja.

Árni Hjartarson, 2010