34. Jórugil - aðfærslugangar móbergshryggja

JórugilJórugil liggur ofan frá Lönguhlíð (misgengisstalli) í nokkrum hlykkjum niður í Þingvallavatn, oftast vatnslaust, en getur hlaupið upp í leysingum sem ummerki sýna. Gilið hefur skorið þrjá móberghryggi niður í grunn og berað gosgangana sem fæddi þá. Tveir af hryggjum þessum tilheyra yngstu móbergssyrpunni af þrem sem fyrir koma í Dyrafjöllum en einn þeirri elstu. Vart er hægt að kalla þann síðastnefnda hrygg, svo er hann er sorfinn og útjafnaður, greinilegur þó sem lág bunga utan í Jórukleif. Bergið í honum er dílalaust ólivínbasalt og eins í berggangi sem skerst upp í gegnum grágrýtið í Kleifinni og nær upp að bungunni þar sem hún er þykkust á misgengisbrúninni. Gangurinn er um einn metri á þykkt, að hluta til þverstuðlaður og að hluta úr móbergsgleri. Þar hefur vatn komist að og hraðkælt kvikuna.

Efsti gangurinn er í lágum hrygg sem tengir Jórutind og Litla-Sandfell. Hann skerst upp í gegnum grágrýti og jökulurð og tengist hvössum en lágum hrygg úr móbergsbreksíu með bólstrum. Í ganginum eru tvö þil með grönnum stuðlum, uppsveigðum til jaðranna, en á milli er þunnt bil og í því móbergsgler. Þykktin gangsins er um 1 metri. Bergið í gangi og hrygg er dílótt basalt.

Þriðji gosgangurinn er neðar í gilinu þar sem heitir Jóruhóll. Hann er í norðausturframhaldi af Háhrygg og nær óslitinn allangt inn með Jórukleif og heitir þar Setberg. Gilið norðan undir Jórukleif snardýpkar við ganginn. Hann sker þar dílalausa móbergsmyndun, þá sömu og elsti gangurinn fæddi af sér, og nokkurra metra þykkt setlag ofan á því. Í móberginu eru í honum tvö þil eins og í efsta ganginum en í setinu kvíslast hann upp að móbergsbreksíu sjálfs hryggjarins. Bergið í gangi og hrygg er sömu gerðar og í þeim efsta.

 

Aðgengi

Staðsetningarkort yfir JórugilStyst er að ganga upp í Jórugil frá Grafningsvegi við Hestvík suðvestanveða.

Kristján Sæmundsson, 2010