33. Dyrafjöll - móbergshryggir og misgengi

Dyrafjöll eru samsett úr mörgum goseiningum sem skiptast í þrjár syrpur. Tvær af þeim eru við Nesjavallaveginn.

Eldri gossyrpan er úr næstum dílalausu þóleiítbasalti, sem aðallega er móberg, en grágrýtishraunlög samkynja eru ofan á því, ósamfelldir flákar og bleðlar. Grágrýtið er straumlögótt og oft rauðagjall neðst í því. Stærsti flákinn er á Háhrygg.

Yngri syrpan samanstendur af bólstrabergs- og móbergshryggjum úr dílóttu basalti. Móbergshryggirnir eru skarpir en bólstrabergshryggirnir ávalir og skriðurunnir. Hryggir þessir eru fremur efnisrýrir og dalir skilja þá að, luktir öllum megin. Fyrir kemur þó að rás hafi grafist á milli. Dyrnar eru dæmi. Þar má á nöfinni sjá jökulbergslag á skilum milli þessara myndana.

Grágrýtið í dyngjunni vestan við Hestvík gengur undir Dyrafjöll. Það er sennilega frá síðasta hlýskeiði ísaldar. Fjöldi misgengja liggur eftir Dyrafjöllum. Lóðrétt færsla á þeim er báðum megin frá að Háhrygg. Í honum er siglægðin þannig dýpst þótt landið sé hæst. Frá Háhrygg gengur hún ofan í Hestvík, og til suðvesturs yfir Hengil. Nesjavellir eru á austurvæng siglægðarinnar. Misgengi eru báðum megin við hann en færsla á þeim er niður til vesturs. Því er líkast að misgengi með færslu niður til austurs sé vestan Nesjavalladalsins en svo er ekki. Þar hefur á austurhlíð Háhryggjar gosið á Hengilssprungunni auk þess sem einn af yngri hryggjunum, Kýrdalsbrúnir, hafa hlaðist þar upp. Eftir Kýrdalsbrúnum liggja að auki tvær gígaraðir. Gosrein þessi er meginuppstreymisrás Nesjavallahluta jarðhitakerfisins sem virkjunin byggir á.

Aðgengi

Staðsetningarkort yfir DyrafjöllGott aðgengi er í allar áttir frá Nesjavallavegi þar sem hann liggur um Dyrafjöll.

Kristján Sæmundsson, 2010