32. Tjarnarhnúkshraun við Ölfusvatnsá - fjölbreyttir hnyðlingar

Tjarnarhnúkur (520 m) er stakur gjallgígur. Hann situr efst á Ölkelduhálsi og er yngstur í röð fjallshryggja sem annars eru úr móbergi með Hrómundartind hæstan. Hraunið á hálsinum sunnan hans er afar veðrað og frostsprungið. Norðan við gíginn heita Lakaskörð. Þar eru hverir og leirskellur. Hraun hefur runnið þar niður en skriður síðan fallið. Þær ná ofan frá gíg, sú efsta, og hafa ýmist bunkast upp í brekkunum eða náð niður á dalgrundina með leirrennsli í Ölfusvatnsá. Hraunið hefur runnið norður með ánni og endar á vatnshjalla í um 160 m hæð.

Eftir að hraunið rann hefur Ölfusvatnsá grafið 1500 m langt gljúfur meðfram því ofan í jökulurð, móberg og aðallega bólstraberg. Jarðveg er ekki að sjá á milli. Hraunið hefur líkast til komið upp skömmu eftir að ísöld lauk. Neðsti hluti gljúfursins er í bólstrabergi úr Mælifelli. Bergið í því er pikrít, afar ólivínríkt. Í bólstrunum má sjá að ólivínkristallarnir hafa sokkið og langmest er af þeim neðst. Í feldspatdílóttu bólstrabergi, sem einnig kemur fram í gljúfrinu, má sjá að feldspat (bytownít) í bólstrum þess hefur sokkið og mun minna er af því efst í bólstrunum en neðan til. Hraunið úr Tjarnarhnúk er mjög dílótt, aðallega af feldspati. Óvenju mikið er í því af hnyðlingum. Mest er af þeim neðst í hrauninu við gljúfrið. Hnyðlingarnir eru úr grófkristölluðu bergi, gabbrói, mismundandi að gerð eftir því hvaða steind er ríkjandi. Hnyðlinga má einnig finna í bombum utan í gígnum. Steindir í gabbróhnyðlingunum eru þær sömu og finnast sem dílar í hrauninu sjálfu. Því er líkast að hér hafi kvikumassi verið að storkna í gabbró þegar nýtt kvikuinnskot blandaðist honum og braust upp til yfirborðs.

Aðgengi

Staðsetningarkort yfir Tjarnarhnúkshraun við ÖlfusvatnsáVegur liggur upp á Ölkelduháls, fær jeppum. Frá honum er stutt á ganga á Tjarnarhnúk. Ef skoða skal hraunið í Ölfusvatnsárgljúfri þarf að ganga þaðan sem vegur endar vestan undir Víðihlíð og fylgja þá ánni vestan megin, því að þar er meira að sjá. Þegar komið er þangað sem bólstrabergið úr Mælifelli (úr pikríti) nær að ánni þarf að vaða yfir hana og finna sér leið upp að hrauninu. Krökkt er af gabbró-hnyðlingum í því.

Kristján Sæmundsson, 2010