31. Súlufell - sprengigígar

SúlufellSúlufell (446 m) er norðarlega í Grafningshálsum, strýtulaga móbergsfjall, núið af jökli og þakið jökulruðningi hið neðra. Suðvestan í því er feiknamikill gígur, Smjördalur, gróinn í botninn og þverhnípt, sveiglaga hamraþil upp af að austan. Vestan megin er lægra upp úr dalnum og þar sem lægst er rennur dalbotninn saman við yfirborð ássins sem fjallið rís upp af, framhald Katlatjarnahryggjar til norðurs.

Gígurinn er um 500 m yfir barminn á langveginn en um 400 m þvert á. Í hömrunum að austan sést innri gerð Súlufells, bólstraberg upp fyrir miðju, og móberg þar ofan á. Gígurinn skerst upp í gegnum berglög fjallsins og það hefur verið fullmyndað er hann braust upp. Norðan megin hefur svo bólstrabergshryggur komið upp utan í háfjallinu og nær með suðurendann nokkuð ofan í gíginn. Úrkast er ekki þekkt sem tengst gæti myndun hans. Ætla verður að hann hafi myndast á ísöld og það lent á jöklinum. Basaltkvika veldur ekki sprengigosi nema vatn komist að henni og hvellsjóði. Koldíoxíð þenst einnig við fasabreytingu og þekkt er að það eykur á gjóskumyndun í basaltgosum. Nærtækt dæmi um það eru Seyðishólar í Grímsnesi. Þá er þriðji möguleikinn að súr kvika hafi komið þarna upp en hún er gasrík og henni fylgja sprengigos. Hins vegar kemur venjulega hraun eða gúll á eftir en slíks sér hér ekki merki, nema ef hryggurinn norðan í honum sé af þeim toga og þá basaltfasi í blönduðu gosi þar sem súri fasinn fór á undan. Fráleitt er þetta kannski ekki því að ísúrt berg kemur þarna fyrir, þ.e. í Stapafelli norðan við Hrómundartind. Sunnar á Katlatjarnahrygg er röð sams konar sprengigíga, Katlatjarnir, eða Kattartjarnir. Sá syðsti hefur sprungið upp úr Kyllisfelli. 

 

Aðgengi

Staðsetningarkort yfir SúlufellAka má eftir jeppaslóð sem liggur upp á Víðihlíð, austan sumarhúsabyggðar, og eftir henni suður á móts við Smjördal, en svo heitir gígurinn í Súlufelli. Á henni kann að vera læst hlið. Þaðan þarf þá að ganga nokkra kílómetra á áfangastað.

Kristján Sæmundsson, 2010