30. Gjárnar á Þingvöllum

Gjárnar á Þingvöllum.Gliðnunarbelti Reykjaneshryggjar gengur inn í Ísland. Á Reykjanesskaga er það samsett af tveim þáttum, gliðnun og sniðgengi. Það mætti nefna sniðrekbelti. Hreint rekbelti verður hryggjarstykkið ekki fyrr en norðan Hengils, í norðurgrein eldstöðvakerfis hans. Partur af því er Þingvallasigið með gjánum beggja vegna.

Gjárnar norðan við Þingvallavatn eru í dyngjuhrauni sem rann fyrir um 10.000 árum. Gígurinn í dyngjunni er suður af Hrafnabjörgum. Nýrunnið náði hraunið suður á móts við Nesjaey. Þingvallavatn var þá að flatarmáli aðeins um þriðjungur þess sem það er nú. Gjárnar komu fram við tognun yfir flekaskilin og því fylgdi landsig. Þetta gerðist í hrinum með gangainnskotum frá Hengli og gliðnun gjánna ofan þess sem gangarnir náðu. Við landsigið færðist ströndin innar. Tímann á milli slíkra umbrota þekkjum við ekki en síðasti atburður af því tagi varð í júní 1789. Sokkinn túngarður í Vatnskoti sýnir að landsigið þar nam um 2,5 metrum. Vestan megin er svo til allt sigið um Almannagjá en austan megin deilist það á fleiri gjár. Sigið í Almannagjá losar 40 m þar sem mest er.

Líta má á misgengin við Hestvík sem framhald gjárinnar til suðvesturs. Þar sneiða þau sundur grágrýtisdyngju og er austurhlíð hennar töluvert neðar en botn víkurinnar. Samanlögð stærð sigstallanna, þeir eru tveir stærstir, nemur hátt í 400 metrum. Hún gæti eftir því verið tíu sinnum eldri en Þingvallahraun og þá frá síðasta hlýskeiði ísaldar.  

Aðgengi

Staðsetningarkort af gjánum við Þingvelli.Víða er hægt að skoða gjárnar. Gaman er að ganga niður eftir Almannagjá frá bílastæði við Hakið og áfram eftir Stekkjargjá. Eins er hægt að ganga eftir gjárbrúnum vestanverðum norður í Þjónustumiðstöð á Þingvöllum eftir nokkuð greinilegum stíg. Flosagjá er best að skoða frá bílastæði rétt austan við gjánna og Silfru frá bílastæði norðan við Valhallarveg.

Kristján Sæmundsson, 2010