3. Valahnúksmöl - sjávarkambur

ValhnúksmölValahnúksmöl er 420 m langur og 80 m breiður stórgrýttur sjávarkampur
(-kambur) úr vel núnum hnullungum, mestmegnis á bilinu 1-3 fet í þvermál. Hann liggur þvert um sigdæld, eða sigdal, sem markast af Valahnúk í norðri og Valbjargagjá í suðri. Þegar hásjávað er myndast lítið lón innan við kampinn.

Uppruna grjótsins í Valahnúksmöl er einkum að leita í sjávarklettum milli kampsins og Reykjanestáar. Ströndin þarna er ákaflega brimasöm og er þungi úthafsöldunnar mikill þegar hún skellur á klettunum. Ber hún skýr merki þessara átaka og er alsett básum og skútum, jafnvel gatklettum. Valahnúksmöl liggur nokkuð inn á Yngra Stampahraun, sem rann á öndverðri 13. öld, og er því yngri.

Vert er að benda á frumstæða sundlaug innan við kampinn gerða af vitaverði í Reykjanesvita á 3. áratug síðustu aldar. Laugin var sprengd niður í sprungu við norðanvert lónið. Hún var einungis nothæf á flóði en með aðfallinu streymir sjór um sprungur inn í lónið og hitnar.

Aðgengi

Staðsetningarkort af ValahnúksmölAðgengi er gott að Valahnúksmöl en þangað er best að ganga frá Valahnúk. Einnig er gott útsýni yfir hana ofan af hnúknum. 

Ítarefni

  • Etienne, S., Paris, R., 2010. Boulder accumlations related to storms on the south coast of the Reykjanes Peninsula (Iceland). Geomorphology 114, 55-70. 
  • Guðmundur G. Bárðarson, 1931. Sjólaugin á Reykjanesi. Náttúrufræðingurinn 1, bls. 78-80.

 Magnús Á. Sigurgeirsson, 2010