3. Ásbyrgi

Ásbyrgi.Ásbyrgi er grafið af Jökulsá á Fjöllum eftir að Stóravítishraun rann fyrir 11-12.000 árum. Hamraveggirnir eru úr einu og sama beltótta hrauninu sem talið er upprunnið í einni af stærstu dyngjum landsins. Á Eyjunni í Ásbyrgi er að finna bæði hvalbök og jökulrákaðar klappir. Jökulrákir sem mælst hafa á austurhluta hraunsins allvíða umhverfis Ásbyrgi sýna að jökull gekk yfir það til norðurs og hefur að öllum líkindum náð út í Öxarfjörð. Stórgrýtisdreif og þunnur jökulruðningur hefur fundist víða á hrauninu vestur fyrir Undirvegg. Hugsanlega hefur Ásbyrgi grafist undir jökli eða við hörfandi jökuljaðarinn. Endurtekin stórhlaup í Jökulsá á Fjöllum hafa síðan mótað Ásbyrgi í þá mynd er sjá má í dag. Öskulög benda til þess að síðast hafi hlaupið í Ásbyrgi fyrir um 2500 árum, skömmu eftir að Heklulagið H3 féll.

 

 

 

 

Aðgengi

Staðsetningarkort af Ásbyrgi.Ásbyrgi er vel aðgengilegt frá þjóðvegi nr. 85 í Kelduhverfi. Frá Austurlandi er hægt að fara um Hólsfjöll og Hólssand, en þar er malarvegur. Ásbyrgi er merkt nr. 3 á kortinu.