29. Ölfusvatnslaugar - uppsprettur

Ölfusvatnslaugar. Ljósmynd Kristján Sæmundsson.Ölfusvatnslaugar eru austan undir Hengli, þyrping hvera og kalklauga. Hverirnir eru í brekkunni ofan við laugarnar, aðallega gufuhverir. Töluverður brennisteinn er í þeim. Laugarnar eru á dálitlum bala. Þar hafa fyrrum verið goshverir. Gospípa þess stærsta er 1,5 m á vídd og í henni smáólga af loftbólum og lítið rennsli af um 70°C heitu vatni. Hrúðurbunga, 50x50 m að stærð, er umhverfis. Hún er úr kalkhrúðri. Hverir og laugar austan við Hengil frá austanverðum Innstadal inn að Ölfusvatnslaugum eru með kolsýruríku vatni og ölkeldur koma fyrir. Koldíoxíð er kvikugas sem einkum ber á í háhitakerfum þegar innskotsmassi, hér sennilega gömul kvikuþró, í rótum þeirra storknar.

 

 

Aðgengi

Staðsetningarkort af ÖlfusvatnslaugumAð Ölfusvatnslaugum verður ekki komist nema gangandi frá borplani í Kýrdal að suðaustasta borplani Nesjavallavirkjunar og þaðan sem leið liggur austur yfir lágan háls og inn með honum að austan.

Kristján Sæmundsson, 2010