28. Hverahlíð - jökulhamlaður hraunjaðar

Hverahlíð. Hverahlíð er hluti af bogadregnum stalli. Hann er hæstur á móts við hverina en lækkar niður að jöfnu til austurs og heldur nokkurn veginn hæð til vesturs. Stallur þessi er hraunbrún á dyngju sem myndaðist seint á ísöld, líklega á síðasta jökulskeiði, og nefnd er Skálafellsdyngja (ekki örnefni). Hún er hæst vestan við Skálafell. Þar er gígurinn, Trölladalur. Hraunið er skrapað af jökli sem hvalbök og jökulrákir á því sýna. Hraunbrúnir sem þessar myndast þar sem hraun hafa runnið í aðhaldi af jökli. Hér hefur hann verið á hæð við stallinn eða lítið þar yfir. Neðst í stallinum sést hér og þar móbergsbreksía með bólstrum. Hún nær hátt upp í hann nokkuð austur frá hverunum. Vatn hefur eftir því staðið mishátt í lóni milli jökuls og hrauns. Lægri stallur í miðri hlíð sýnir hraunrennsli við lága vatnsstöðu. Hverahlíðarhorn skagar vestur úr hraunjaðrinum. Þar hefur hraunið leitað í rás sem þangað lá. Hraunið hefur runnið niður á jafnsléttu í Ölfusi og í sjó við um það bil 30 m háa sjávarstöðu sem skil á breksíu og hraunlögum sýna. Þar er á því hnullungakambur eftir 20 m hærri sjávarstöðu frá lokum ísaldar.

Hverirnir sem hlíðin dregur nafn af eru á NA-SV sprungu. Hana má rekja töluverðan spöl suður á dyngjuna. Undir Hverahlíð er hæstur hiti í jarðhitakerfinu sunnan Hengils, vel yfir 300°C.

 

Aðgengi

Staðsetningarkort af Hverahlíð.Um 1,3 km ganga er frá Suðurlandsvegi að Hverahlíð, en eins er hægt að aka suður á gamla þjóðveginn og þaðan að borholum Orkuveitunnar.

Kristján Sæmundsson, 2010