25. Rauðhólar - gervigígar

Rauðhólar í Leitahrauni. Ljósmynd Magnús Á. Sigurgeirsson.Fyrir um 5200 árum varð eldgos í austanverðu Brennisteinsfjallakerfinu en þá rann mikið hraun frá gígnum Leitum austan undir Bláfjöllum (nefnt Leitahraun). Meginhraunstraumurinn fór til suðurs á milli Bláfjalla og Lambafells og niður á láglendið, allt til sjávar (þar sem nú er Stokkseyri). Önnur hraunkvísl rann til norðurs að Húsmúla og síðan til vesturs um Sandskeið, Lækjarbotna, Elliðavatnslægðina og síðan um farveg Elliðaár til sjávar. Á leið sinni fór hraunið um allvíðlent votlendi og grunnt stöðuvatn, forvera Elliðavatns. Gufusprengingar urðu í hrauninu þegar það rann yfir vatnssósa setlög og upp hlóðst þyrping gjall- og klepragíga. Hólarnir ná yfir um 1,2 ferkílómetra svæði. Annað minna gervigígasvæði er um 5 km austan Rauðhóla, svonefnd Tröllabörn.

Rauðamalarnám var stundað af kappi úr Rauðhólum um miðja síðustu öld og var þá um þriðjungi hólanna spillt. Talið er að gíghólarnir hafi í upphafi verið um 150 talsins. Í sundurgröfnum gígunum gefst gott tækifæri til að skoða innri gerð gervigíga og sjá hvernig þeir hafa hlaðist upp. Hægt er að aka að Rauðhólum frá Suðurlandsvegi, um 1 km austan Rauðavatns.

Aðgengi

Staðsetningarkort af RauðhólumEkið er frá Suðurlandsvegi eftir  Heiðmerkurvegi, en þaðan er örstutt að Rauðhólum.

Magnús Á. Sigurgeirsson, 2010

Ítarefni

  • Þorvaldur Þórðarson og Ármann Höskuldsson (2002). Classic geology in Europe 3. Iceland.  Terra Publishing, England, 200 bls.
  • Jón Jónsson (1978). Jarðfræðikort af Reykjanesskaga (1:25 000). Orkustofnun OS-JHD-7831, 303 bls. (skýrsla ásamt kortum).