23. Hverfell

Hverfell.Hverfell er öskugígur sem myndaðist í þeytigosi fyrir um 2700 árum, syðstur gíga á 20 km langri gossprungu sem náði slitrótt norður í Éthóla syðst í Gjástykki. Þegar gaus náði Mývatn þangað sem nú er Hverfell. Fellið er á sprungusvæði og gæti vatn hafa komist um gjá að gosrásinni. Snerting kviku og vatns veldur gufusprengingum og sundrungu kvikunnar í ösku. Askan dreifðist norður og suður frá Hverfelli og finnast stabbar af henni norðan þess þar sem hún hefur bakast í hellu fyrir áhrif jarðhitans. Undir henni má sjá ljósa gjóskulagið Heklu-3 sem er um 2900 ára gamalt. Í jarðvegi finnst Hverfellsaskan allt norður í Kelduhverfi.

Gígbarmur Hverfells er um 150 m hár þar sem hann er hæstur og þvermál gígsins rúmlega 1 km. Skriða hefur fallið sunnan megin úr Hverfelli seint í gosinu og er farið enn sjáanlegt. Í það hefur hlaðist dálítill öskubingur og myndar hól í miðju farinu á gígkambinum. Skriðan sjálf er komin undir hraun.

Aðgengi

Staðsetningarkort af Hverfelli.