23. Ástjörn

 Ástjörn er hraunstífluð tjörn í kvos vestan undir Ásfjalli, tæpir 5 ha að stærð og liggur í um 20 m hæð yfir sjó. Berggrunnurinn í kvosinni undir tjörninni er kubbaberg úr neðsta hluta Reykjavíkurgrágrýtisins en í Ásfjalli er yngra grágrýti.

Ástjörn og Ásfjall.Fyrir um 3000 árum rann svokallað Skúlatúnshraun niður með grágrýtisholtunum. Þetta var þunnfljótandi helluhraun sem nú myndar ströndina milli Hvaleyrarhöfða og Álversins í Straumsvík. Það rann fyrir mynni kvosarinnar og þá hefur Ástjörn líklega orðið til í lægð milli hraunsins og grágrýtisins sem myndar Ásfjall.

Skömmu eftir landnámsöld, eða um 950, varð eldgosahrina í Grindaskörðum og Brennisteinsfjöllum. Mjóir, þunnfljótandi hraunstraumar teygðu sig allt niður undir Hvaleyrarholt. Þetta er flatt helluhraun og nefnist eftir útliti sínu Hellnahraun. Tunga úr hrauninu rann inn í kvosina við Ástjörn sem þá fékk sitt núverandi lag.

Ástjörn er afrennslislaus á yfirborði, eins og flest vötn á Reykjanesskaga, en vatnsstaðan í henni ræðst af grunnvatnsstöðunni í berginu. Þegar hátt stendur má greina streymi frá tjörninni inn í vikið vestast í henni þar sem vatn sígur í hraun og skilar sér með grunnvatnsstraumi til sjávar vestan við Hvaleyrarhöfða. Innrennsli í tjörnina kemur úr mýrunum norðan hennar og austan. Þar eru smálindir sem koma úr grágrýtinu. Vatnasvið tjarnarinnar á yfirborði er ekki nema um 1 km2.

Útsýni af Ásfjalli er gott og áhugavert fyrir fólk sem vill fræðast um jarðfræði og sögu Hafnarfjarðar og raunar höfuðborgarsvæðisins alls. Bærinn Ás stóð skammt frá tjörninni en bæði hún og fjallið þar ofan við heita eftir bænum. Tjörnin og svæðið umhverfis hana einkenndust af fjölbreyttu gróðurfari en nú er lúpínan að leggjast yfir svæðið og rýma brott upprunalegum gróðri. Fugla- og smádýralíf er auðugt. Ástjörn er friðuð og umhverfis hana er friðland og fólkvangur.

Aðgengi

Staðsetningarkort af Ástjörn.Koma má að Ástjörn úr ýmsum áttum, göngustígar eru við vatnið og hlíðar Ásfjalls. Uppi á Ásfjalli er gott útsýni yfir friðlandið, Hafnarfjörð allan og nágrannabyggðarlögin. Þar er sjónskífa með örnefnum.

Árni Hjartarson, 2010